Miðvikudagur 11. júní 1997

162. tbl. 1. árg.

Það vakti furðu margra að Reykjavíkurborg var meðal þeirra…
sem buðu í Áburðarverksmiðju ríkisins þegar ríkið auglýsti hana til sölu. Þetta á sér þó sennilega þær skýringar að þegar R-listinn var að brjótast til valda lofaði hann að útrýma atvinnuleysi í höfuðborginni. Atvinnulausum í Reykjavík hefur hins vegar fjölgað á valdatíma R-listans ef marka má opinbera skráningu. Þetta vekur auðvitað sérstaka athygli á uppgangstímum í atvinnulífinu. Borgarfulltrúar R-listans hefðu átt að vera búnir að læra af þessari reynslu. Stjórnmálamenn gera mest gagn ef þeir halda sig til hlés og lækka skatta og útgjöld. Opinberir aðilar geta í besta falli falið atvinnuleysi tímabundið með svonefndum sértækum aðgerðum. R-listafólkið verður að átta sig á því að fé sem notað er á vegum borgarinnar til „atvinnuskapandi verkefna“ er tekið úr vösum einstaklinga og sjóðum fyrirtækja sem hefðu að öðrum kosti notað féð til að fjölga arðabærum og varanlegum atvinnutækifærum. Í leiðara DV í gær voru eftirfarandi orð höfð um þessa tilburði R-listans: „Aðild Reykjavíkur að tilboði í Áburðarverksmiðju ríkisins er dæmigerður sósíalismi af því tagi, sem vinstri flokkar um alla Evrópu hafa sem óðast verið að fleygja, til að vera gjaldgengir í stjórnmálum nútímans.“

Ýmsir hafa velt því fyrir sér hvers vegna Heimdallur notar iðgjöld lífeyrissjóða…
ásamt útgjöldum hins opinbera til að reikna skattadaginn út. Um þetta má auðvitað deila en á móti lífeyrisgjöldunum koma ýmis gjöld, t.d. skyldugjöld til verkalýðsfélaga og Stúdentaráðs, skylduáskrift að RÚV o.fl., sem ekki er reiknað með vegna skattadagsins. Iðgjöld til lífeyrissjóða eru raunar mjög svipuð venjulegum sköttum í yfir 90% tilvika (um 10% greiða í séreignarsjóði). Lífeyrisiðgjöldin eru lögbundið afsal launa og í fæstum tilvikum ráða menn því hvert þau renna. Eins og dæmin sanna er það jafn óvíst hvort menn fá eitthvað til baka af þessum skyldugreiðslum og sköttum. Lífeyrisgjöldin má ekki veðsetja og þau erfast ekki. Munurinn á þeim og venjulegum sköttum er vart sýnilegur. Aðalatriðið í útreikningum vegna skattadagsins er svo auðvitað að fá raunhæfan samanburð milli ára.