Þriðjudagur 10. júní 1997

161. tbl. 1. árg.

Rannveig Guðmundsdóttir og fleira „sameiningarfólk“ hefur verið duglegt…
að lýsa því yfir á undanförnum vikum að jafnaðarmenn séu að leggja heimsbyggðina að fótum sér. Enda sigraði Verkamannaflokkurinn í bresku þingkosningunum með stefnu Íhaldsflokksins og sósíalistar í Frakklandi sigruðu með gömlu stefnu Alþýðuflokksins um þjóðnýtingu og fjáraustur úr opinberum sjóðum að leiðarljósi. Um helgina sigruðu hins vegar hægri menn í kosningum á Írlandi. Það má kannski benda þingflokksformanni Alþýðuflokksins á að þessir írsku hægrimenn eru sennilega líkari íslenskum alþýðuflokksmönnum en vinstri mennirnir í Bretlandi og Frakklandi! Það er því full ástæða til að halda áfram að fagna.

Íslendingar þekkja það af eigin raun hvernig alþjóðleg…
umhverfisverndarsamtök og stofnanir á borð við alþjóða hvalveiðiráðið geta komið í veg fyrir skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda. Í fréttum í gær var sagt frá alþjóðlegri ráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna um dýr í útrýmingarhættu CITES. Þar var sagt frá því að nokkur Afríkuríki vilja að viðskiptabanni á fílaafurðir verði aflétt. Þessu alþjóðlegu viðskiptabanni með dýr í útrýmingarhættu var í upphafi andmælt af meiri hluta þeirra landa sem fíllinn dvelur í. Fyrir bannið hafði fílum í Botswana, Suður-Afríku og Zimbabwe fjölgað vegna hagsmuna sem innfæddir hafa af ferðamönnum, veiðileyfasölu og sölu fílaafurða. Með banninu voru gæslumenn fílanna sviptir tekjum sínum og höfðu ekki lengur hag af því að gæta þeirra. Kenýa bannaði fílaveiðar árið 1976 og síðan hefur fílum þar fækkað um 85%, í Zimbabwe var landeigendum veittur réttur til að nýta villt dýr á landi sínu og síðan hefur land fyrir villt dýr verið aukið um 80%. Eignarréttur tryggir að innkoma en ekki aðeins kostnaður af verndun og skynsamlegri nýtingu kemur í hlut eigenda og verndara dýranna.