Mánudagur 9. júní 1997

160. tbl. 1. árg.

Í Morgunblaðinu í gær er viðtal við Jeff Nania, umhverfisráðgjafa,…
sem starfar hjá bandarískum samtökum um endurheimt votlendis. Í viðtalinu segir Nania það vel geta farið saman að hlúa að kjörlendi fyrir fugla og stunda fuglaveiðar. Það eigi við um langflesta skotveiðimenn að þeir séu jafnframt náttúruunnendur og vilji hlúa að fuglalífi. Hann segir jafnframt að 94% þess fjár sem varið er til náttúruverndar og endurheimt kjörlendis dýrategunda vestanhafs komi frá skot- og stangveiðimönnum í mynd frjálsra framlaga og gjalda fyrir veiðileyfi. Hann telur að fuglaskoðarar og fuglaveiðimenn eigi sameiginlegra hagsmuna að gæta. Það sé ekkert að því að þessir hópar sameinist um endurheimt votlendis og annars kjörlendis fugla.

Þessi orð Nania eru til marks um nýja hugsun í umhverfismálum…
sem víða er að ryðja sér til rúms og felst í markaðslausnum í stað boða og banna. Gott umhverfi er orðið eftirsótt markaðsvara og menn sjá að til að anna þessari eftirspurn þarf að gefa markaðsöflunum lausan tauminn. Stjórnmálamenn og kerfiskarlar munu ekki anna þessari eftirspurn, ekki frekar en eftirspurn eftir fæði og klæði eins og Norður-Kórumenn eru að reyna þessa dagana. Þess má geta að Fuglaverndarfélag Íslands hefur þegar hafið uppfyllingu framræsluskurða í Mávahlíð í Lundareykjadal og bændur víða um land eru farnir að stað með tilraunir í þessa veru. Það kemur einnig fram í greininni í Morgunblaðinu að grafnir hafa verið 31 þúsund km af framræsluskurðum og 60 þúsund km af plógræsum hér á landi frá 1942. Þetta samsvarar um 65 hringvegum. Vart þarf að taka það fram að ríkisvaldið styrkti bændur dyggilega til þess arna.