Jóhanna Sigurðardóttir ritaði kjallaragrein í DV í fyrradag…
þar sem hún bendir fólki á undankomuleið í skattkerfinu og hvetur eindregið til að hún sé nýtt. Fólk með námsmenn á framfæri sínu getur nefnilega fengið skattafrádrátt vegna ómegðar af námsmönnum á aldrinum 21 til 26 ára en aðeins lítill hluti fólk virðist nýta sér þennan frádráttarlið að því er segir í grein Jóhönnu. Það kemur spánskt fyrir sjónir að Jóhanna bendi fólki á leiðir til skattalækkunar enda hefur hún verið einn allra útgjaldaglaðasti stjórnmálamaðurinn síðustu árin en eins og menn vita þá þarf að mæta útgjöldum með skatttekjum fyrr eða síðar.
Pétur Gylfi Kristinsson, skrifar grein í Morgunblaðið í gær…
og vekur athygli á því misræmi sem felst í sérstökum skattaafslætti til einnar stéttar, sjómannaafslættinum. Pétur segir einnig að sjómannaafslátturinn standist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Í lok greinar sinnar segir Pétur: Þeir sem telja að sjómenn eigi að fá sérstakan bónus fyrir vinnu sína ættu að taka það mál upp við útgerðirnar. Það eru þær sem borga launin þeirra og þær ættu því líka að borga bónusinn. Það er ekki í verkahring ríkisins að veita einni starfsgrein hlunnindi umfram aðrar. Það gengur þvert á jafnræðisregluna.