Bill Clinton er mikill…
snillingur. Hann er t.d. fyrsti maðurinn sem fór með viðhaldið á mótelherbergi án þess að fara upp í rúm, fyrsti maðurinn til að reykja maríúana án þess að anda reyknum að sér og einn fárra sem þiggur mútur án þess að láta þær hafa áhrif á sig. Í gær hélt Clinton upp á 50 ára afmæli Marshall aðstoðarinnar, sem fólst einkum í því eins og önnur þróunaraðstoð fyrr og síðar, að losa innlend fyrirtæki við gallaða framleiðslu og umframbirgðir. Ekki var neitt samband á milli þess hvernig ríkjum Evrópu vegnaði og hversu mikla Marshall aðstoð þau fengu. Þróunaraðstoð færir fólk oft úr arðbærum störfum í gervistörf sem búin eru til með þróunaraðstoðinni. Þegar þróunaraðstoðinni lýkur sitja menn svo eftir í vonlausum störfum. Á afmælishátíð Marshall aðstoðarinnar gaf Clinton í skyn að hefja ætti víðtæka(ri) efnahagsaðstoð við ríki Austur-Evrópu. Eins og allir vita heppnaðist ekki alveg að láta stjórnmálamenn skipuleggja efnahagsmálin í ríkjum félagshyggjunnar í Austur-Evrópu. Ætli skipulagning efnahagslífsins heppnist betur ef hún er framkvæmd af erlendum pólítíkusum og skriffinnum?
Hinu má svo ekki gleyma að Bandaríkjamenn björguðu…
Vestur-Evrópu tvisvar úr klóm alræðishyggjunnar á fyrri hluta þessarar aldar og hafa staðið vaktina æ síðan. Margir taka því sem sjálfsögðum hlut en svo á alls ekki að vera. Jafnvel fyrrum NATO-andstæðingur eins og Össur Skarphéðinsson sá ástæðu til þess að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir það fyrr í vetur að styðja ekki nægilega við aðildarumsóknir Eystrasaltsríkjanna að NATO. Það sem Össur var í raun að fara fram á er að Bandaríkjamenn leggi fram fé og mannskap í varnir Eystrasaltsríkjanna. Ekkert aðildarríkja NATO þarf að leggja jafnlítið á sig á Ísland. Það mun ekki koma í okkar hlut að senda hermenn til starfa í nýjum aðildarríkjum NATO, þar sem ástandið er í mörgum tilfellum viðsjárvert. Það er því helber sýndarmennska að við heimtum að íbúar annarra aðildarríkja NATO sendi hermenn út um hvippinn og hvappinn, jafnvel til landa þar sem utanríkisráðherra okkar hefur týnt skjalatösku. Og svo mikið er víst að ekki ætlar Össur að bjóða fram krafta sína enda búinn að sóa þeim í Keflavíkurgöngum á árum áður.