Miðvikudagur 28. maí 1997

148. tbl. 1. árg.

„Félagslega kerfið helsjúkt“, sagði í stríðsfyrirsögn í Vikublaðinu,…
málgagni Alþýðubandalagsins, á mánudaginn. Loksins hafa þeir á Vikublaðinu kveikt á perunni.

Gott dæmi um hve fréttamenn eru oft hugmyndasnauðir í starfi sínu gafst…
í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi. Þar var verið að fjalla um hagfræðilega skýrslu um frelsi í viðskiptum og kom fram þar að velferðarkerfið svokallaða hér á landi var alvarlegasta ógnunin við frjáls viðskipti hér á landi. Fréttamaður Ríkissjónvarpsins, Jón Gunnar Grétarsson, Þorsteinssonar forseta A.S.Í., spurði forstöðumann Hagfræðistofnunar Háskólans, Tryggva Þór Herbertsson, að því hvernig mætti auka frelsi í viðskiptum hér, „án þess að skerða velferðarkerfið“. Fréttamanninum datt ekki einu sinni í hug að velta fyrir sér hvort hugsanlegt væri að skerða hið heilaga „velferðarkerfi“. Er þetta reyndar dæmigerður hugsunarháttur vinstri manna sem jafnan líta á allt er tengist þessu svokallaða „velferðarkerfi“ sem heilaga kú.

Blaðið Dagfari er gefið út af Samtökum herstöðvaandstæðinga. Áður fyrr…
snérist helsti málflutningur herstöðvaandstæðinga um að varnarliðið hefði mengandi áhrif á íslenska menningu. Nú halda samtökin því hins vegar fram að herinn hafi mengað íslenska náttúru. Vafalaust má finna þess dæmi að ríkisstofnunin US Navy hafi mátt ganga betur um en einhliða ofstækisáróður Samtaka herstöðvaandstæðinga í Dagfara er skot yfir markið. Á forsíðu blaðsins má sjá fulltrúa Bandaríkjanna hella geislavirkum úrgangi, þrávirkum efnum og öðru eitri yfir Ísland! Dr. Einar Valur Ingimundarson, umhverfisverkfræðingur, skrifar grein undir fyrirsögninni „Eitraður arfur hersetunnar”. Í greininni segir m.a. um mengun grunnvatns á Miðnesheiði: „Styrkur tveggja eiturefna, TCE og PCE reyndist langt yfir öllum leyfilegum lágmörkum.“ Ætli menn viti almennt af því að lágmarksstyrks TCE og PCE er krafist í grunnvatni?!!

Því má svo ekki gleyma að bandaríska varnarliðið var fengið hingað til lands…
til þess að styrkja varnir lýðræðisríkjanna gegn skoðanabræðrum Birnu Þórðardóttur, Einars Vals Ingimundarsonar og Sveins Rúnars Haukssonar í Sovétríkjunum sálugu. Ef andstaða þeirra við hernaðarbrölt væri raunveruleg hefðu þau auðvitað átt að einbeita sér að því að telja um fyrir vinum sínum í Kreml.