Fyrir nokkrum dögum kom út ritið…
,,Fiskimiðin og þjóðarheill – er auðlindaskattur æskilegur?“ Í ritinu rekja Illugi Gunnarsson, hagfræðingur, og Orri Hauksson, verkfræðingur, ýmsar fullyrðingar stuðningsmanna veiðileyfaskatts. Meðal þess sem þeir taka fyrir er hvort leyfa eigi framsal veiðiheimilda, hvort auðlindaskattur sé nauðsynlegur til að koma arðinum til þjóðarinnar, hver áhrif auðlindaskattsins yrðu á byggðir landsins, hvort ná þurfi fram sveiflujöfnun með auðlindaskatti, hvort ekki sé réttlátt að þeir sem nýta sameign þjóðarinnar greiði gjald til ríkissjóðs, málflutning Gary S. Becker, o. s. frv. Mikill fengur er að þessu aðgengilega riti en alltof lengi hafa stuðningsmenn aukinnar og sérstakrar skattheimtu á sjávarútveginn verið einir á sviðinu. Sérstaklega er ánægjulegt að ungt fólk skuli með þessum hætti andmæla kröfum um aukna skattheimtu.
Grípum niður í ritið þar sem þeirri spurningu er velt upp hvort…
útgerðir eigi að skila aflaheimildum til ríkisins ef þær hætta rekstri: ,,Þessi hugmynd er mjög varhugaverð. Í flestum tilvikum hætta útgerðir rekstri vegna þess að þær geta ekki lengur staðið í skilum við lánadrottna sína. Við slíkar aðstæður eru fyrirtækin gjarnan gerð upp og þau verðmæti sem finnast í búinu notuð til að greiða skuldir. Aflaheimildir fyrirtækja eru oft helstu verðmæti þeirra. Ef skila þarf bótalaust aflaheimildum til ríkisins verður minna eftir til að greiða skuldir og tap lánadrottna þeim mun meira. Einnig má leiða að því rök að eigi aflaheimildir að renna án greiðslu til ríkisins (sé útgerð hætt) þá muni það valda því að útgerðir reyni að halda áfram rekstri lengur en hagkvæmt er. Þá má spyrja hvernig stjórnvöld eigi að fara með þær aflaheimildir sem renna til þeirra. Á að selja þær og þá á hvaða verði? Á að bjóða þær upp á markaði? Á að úthluta þeim til þeirra sem eru að hefja útgerð og þá eftir hvaða reglu? Ekki þarf mikla spádómsgáfu til að sjá fyrir þá óhagkvæmni og jafnvel pólitíska spillingu sem slíkt kerfi myndi leiða af sér.”
Þeir sem hafa áhuga á að fá eintak af þessu afbragðs riti geta sent andriki@andriki.is nafn og heimilisfang sitt og við munum koma því á framfæri við útgefendur.