Helgarsprokið 11. maí 1997

131. tbl. 1. árg.

Íslensk ungmenni verða sjálfráða…
við 16 ára aldur. Í sjálfræðinu felst réttur til að ráða persónulegum högum svo sem dvalarstað og vinnu og ráðstöfunarréttur yfir sjálfsaflafé. Svonefnt fagfólk í félagsmálaiðnaðinum hefur á undanförnum árum reynt að fá sjálfræðisaldurinn hækkaðan í 18 ár. Það hefur einkum verið á þeirri forsendu að þá þurfi ekki að fá dómsúrskurð til að svipta þá fáu einstaklinga á aldrinum 16 til 18 ára sem eiga við fíkniefnavanda að stríða, sjálfræði! Fagfólkinu er greinilega fyrirmunað að koma auga á hagsmuni allra hinna. Af um tíuþúsund einstaklingum á þessum aldri eru ef til vill nokkrir tugir sem geta ekki séð fótum sínum forráð. Hækkun sjálfræðisaldursins er því dæmigert félagshyggjuúrræði: Vegna vanda fárra eru allir eru sviptir frelsinu og settir á sama færibandið. Hvar endar þessi röksemdafærsla? Af hverju er sjálfræðisaldurinn ekki bara hækkaður í 28 eða 58 ár? Þá þyrfti ,,fagfólkið æ sjaldnar að leggja það á sig að færa rök fyrir sjálfræðissviptingu fyrir dómstólum.

Í Degi-Tímanum í gær segir Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokks,…
að sátt sé um það í allsherjarnefnd Alþingis að sjálfræðisaldurinn verði hækkaður en nefndin hefur að undaförnu fjallað um frumvarp Þorsteins Pálssonar, dómsmálaráðherra, um ný lögræðislög. Þegar frumvarpið kom frá dómsmálaráðherra var ekki gert ráð fyrir hækkun sjálfræðisaldurs. Ef dómsmálaráðherra og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokks láta undan forræðishyggjuliðinu á Alþingi í þessu máli er ljóst að flokkurinn stendur ekki undir nafni. Sjálfstæði einstaklingsins er flokknum greinilega lítils virði.