Helgarsprokið 4. maí 1997

124. tbl. 1. árg.

Á baksíðu DV 2. maí var mynd af glaðbeittum mönnum …
að fagna úrslitum kosninga í Bretlandi. Voru þar meðal annarra Össur Skarphéðinsson, Már Guðmundsson og Mörður Árnason. Einhver lesandi blaðsins sagði er hann sá þá mynd:

Gleymist nú deyfðin og drunginn
og drukkið er fínasta vín,
baráttusöngur er sunginn
og sælan úr andlitum skín,
því nú hlaða vinstri menn vörður
sem vís’ inní komandi öld
og Össur og Mási og Mörður
munu loks sigra í kvöld.

Og Össur les innfjálgur pistil
sem yljar og hrífur þá svo
að hrifning frá hjart’ oní ristil
hristir og skekur þá tvo.
Í kæti svo fylgja þeir fleirum
og fagnar nú hver sem hann má,
þeir bros’ útað báðum eyrum
– þó Blair sé til hægri við þá.

Hér sættast nú fornir féndur
og friður hér ríkir og sátt,
þeir kyssast og haldast í hendur
hljóðir og segja fátt.
Enginn skal velkjast í vafa
hve vináttan grær hér fast,
því íslenskir öreigar hafa
í eitt skipti sameinast.

Og hver sem fær vettlingi valdið
er vígfús og herskár um stund,
en þegar að heim verður haldið
hljóðlega breytist sú lund
því hver er sá glópur að gleymi
hve glær hér er málstaðurinn?

Aumt er að eig’ útí heimi
einasta vinninginn sinn.

Það vakti athygli í þingkosningunum í Bretlandi að Verkamannaflokkurinn…
nefndi sig allstaðar sem New Labor en ekki bara Labor eins og vaninn er. Hvað sem kosningaúrslitunum líður er það óneitanlega niðurlæging fyrir stjórnmálaflokk að þurfa að taka fram að ekki sé um sama flokk að ræða og síðast heldur nýtt eintak. Í ljósi þess að Verkamannaflokkurinn hefur aldrei náð endurkjöri á þessari öld segja gárungarnir New Labor – Best before 2002.

Árið 1938, við samruna Austurríkis og Þýskalands þjóðernissósíalistans Hitlers,…
voru eignir hins kunna hagfræðings Ludwig von Mises gerðar upptækar. Þar í voru ýmis skjöl og pappírar sem menn hafa talið glötuð í nær 60 ár. Í október á síðasta ári komu þau í leitirnar í Moskvu. Skjölin voru til sýnis á sérstakri sýningu í Hillsdale College í Michigan í Bandaríkjunum fyrir skömmu og hver veit nema eitthvað verði gefið út á næstunni og bætist í hóp fyrri rita hans. Það eina sem komið hefur út á íslensku eftir Mises er ritið Hugleiðingar um hagmál í þýðingu Jónmundar Guðmarssonar sem Stofnun Jóns Þorlákssonar gaf út. Laissez Faire bókaklúbburinn býður upp á gott úrval verka meistarans.

Eins og sjá má hér að ofan á VEFÞJÓÐVILJINN 100 daga afmæli í dag. Útgefendur hans eru hæstánægðir með viðbrögðin þessa hundrað daga og sívaxandi lesendahóp og því er ekki útlit fyrir annað en að útgáfunni verði haldið áfram af fullum krafti. Við notum tækifærið til að minna á styrktarkerfi okkar.