Halldór Björnsson, formaður Dagsbrúnar, gekk í orðasmiðju Ólafs Ragnars Grímssonar…
í gær þegar hann sagði Guðmund Gunnarsson, formann Rafiðnaðarsambandsins hafa skítlegt eðli“. Ef til vill ætlar Halldór í forsetaframboð og næsta skref hans hlýtur þá að vera afneitun á guðstrú og svo afneitun afneitunarinnar. En hvað sem því líður er vissulega mikilvægt að helstu framlögum Ólafs Ragnars Grímssonar til íslenskrar menningar sé haldið til haga.
Í nýafstaðinni baráttu um embætti rektors í Háskóla Íslands…
kepptust frambjóðendur við að tala um háskólasamfélagið”. Rétt eins og HÍ væri einhvers konar sjálfsþurftarbúgarður án tengsla við umheiminn. Því furðulegri var þessi málflutningur að frambjóðendur töluðu mikið um að efla þyrfti tengsl háskólans við atvinnulífið og gott ef ekki almenning líka, fólkið sem borgar brúsann eins og þar stendur. Ef til vill væri fyrsta skrefið í þá átt að prófessorar háskólans hættu að tala um háskólasamfélagið“, líkt og þar sé aldingarður útvalinna.
Eins og kunnugt er sigraði Páll Skúlason,…
heimspekiprófessor, í traktorskjörinu. Ekki má minna vera en að við vitnum í eitt rita Páls þar sem hann útskýrir lífið og tilveruna með svo eftirminnilegum og einföldum hætti: Sjálfsvitund sem er ekki annað en vitund um sjálfan sig sem einstakling rofinn úr tengslum við hinn ytri veruleika er því ekki fullmótuð sjálfsvitund, samkvæmt lýsingu Hegels, heldur einungis tilfinning fyrir sjálfum sér og hugsanlegu frelsi sínu. Sönn sjálfsvitund er vitund um sjálfan sig sem höfund verka sinna í samfélagi, þar sem gagnkvæm viðurkenning ríkir milli manna. Menn geta því einungis orðið fullkomlega meðvitandi um sjálfa sig í þjóðfélagi, þar sem þeir eru ábyrgir hver gagnvart öðrum. Menn eru ekki einfaldlega vitandi af sjálfum sér í sjálfum sér”, heldur í hinum ytri veruleika: í öðru fólki og hlutunum sem þeir eru ábyrgir fyrir.“ Einmitt.