Af og til kemur út blað hér í borg sem ber hið…
athyglisverða nafn Tíund. Þar er um að ræða fréttabréf embættis ríkisskattstjóra, og í því er að finna umfjöllun um margvísleg mál sem tengjast skattkerfinu, fréttir af starfsmönnum skattstjóraembættanna, gamansögur úr skattaeftirliti og fleira þess háttar. Blað þetta er litprentað og vandað að allri gerð og er ljóst að það hlýtur að kosta sitt. Ekki er um neinar auglýsingar að ræða í blaðinu (enda myndi auglýsingasöfnun meðal fyrirtækja fyrir svona blað vera hreinasta fjárkúgun) og verður því að ætla að það sé gefið út á kostnað skattgreiðenda.
Þótt útgáfa ,,Tíundar“ sé sérkennileg ráðstöfun á almannafé…
er ekki þar með sagt að blaðið sé óáhugavert. Raunar ættu allir áhugamenn um skattamál að reyna að ná sér í eintak. Þannig er í nýjasta tölublaðinu athyglisvert viðtal við ungan lögfræðing, Sigríði Björk Guðjónsdóttur, sem var í haust skipuð skattstjóri á Vestfjörðum. Sérstaka athygli vekja skeleggar yfirlýsingar skattstjórans um skattapólitísk álitaefni og er vert að birta hér stuttan kafla úr viðtalinu, þar sem vikið er þeim þáttum: ,,Ég er þeirrar skoðunar að skattalöggjöfin eigi ekki að vera samningsatriði, hvorki í kjarasamningum né til að mæta þörfum einstakra hagsmunahópa. Ég tel að einfalda beri skattalögin, afnema afslætti hverju nafni sem þeir nefnast, s.s. sjómannaafslátt, sem ég tel að sé tímaskekkja, og að minnka þann þátt skattkerfisins sem felst í að vera e.k. félagsmálastofnun eða tryggingastofnun. … “ Full ástæða er til að taka undir þessi ummæli skattstjórans unga, og eins er ástæða til að fagna því að starfsmenn skattkerfisins þori að tjá sig um galla þess, en til þess eru næg tilefni.
Alþýðublaðið, síðasta íslenska flokksdagblaðið, er jafnan óþrjótandi uppspretta…
undarlegra skoðana. Oft má varla á milli sjá hvort sé grátbroslegra, fréttaflutningur blaðsins eða hinar ágætu skrípamyndir ,,hinumegin”, sem eru fastur liður í blaðinu. Sérstaklega er gaman þegar ritstjóri blaðsins er með uppslátt um sjálfan sig, viðtal og flennimyndir. Einstaka sinnum rofar þó til og ber að fagna því sérstaklega. Eins og bent var á hér í blaðinu í fyrradag, er formaður hins fylgislausa Þjóðvaka óþreytandi við að hneykslast á launakjörum bankastjóra ríkisbankanna, aftur og aftur og aftur. Hins vegar hefur formaðurinn ávallt kosið að draga annan lærdóm af kjörum bankastjóranna en þann sem augljós er. Eina leiðin til að tryggja að ekki renni óeðlilega mikið af fé ríkisbankanna í vasa forstjóra þeirra, er að koma þessu fé í einkaeigu betri féhirða en ábyrgðarlausu ríkisstarfsmannanna við Austurvöll. Í hópi hinna hneyksluðu hafa allt of fáir bent á þá augljósu staðreynd, að einkavæðing ríkisbankanna er fyrir löngu orðin tímabær. Sumir forsprakka jafnaðarmanna virðast ekki einu sinni hafa áttað sig á að breyting á rekstrarformi bankanna í hlutafélag, með eftirfarandi sölu þeirra, sé spor í rétta átt. Í gær barst hins vegar hjálp úr óvæntri átt, því í leiðara Alþýðublaðsins segir meðal annars: ,,Það verður hins vegar að setja alla hluti í samhengi. Sú óforsjálni með fjármuni skattborgaranna, sem Jóhanna Sigurðardóttir velur orðin ,,subbuskapur og hneisa,“ stafar af því, að bankarnir sæta ekki nógu ströngu aðhaldi. Einungis aðhald markaðarins, beinna eigenda, er trygging fyrir því að fjármunum fjöldans sé ekki sóað með þessum hætti.” Ef nú forsprakkar Alþýðuflokksins gerðu allir eins og málgagnið býður, yrði einkavæðingartal flokksins trúverðugra.