Það er árviss viðburður að Jóhanna Sigurðardóttir…
slær sér upp á launakjörum bankastjóra ríkisbankanna. Á síðasta kjörtímabili kom Jóhanna, ásamt Guðmundi Árna Stefánssyni og Össuri Skarphéðinssyni, í veg fyrir að ríkisbankarnir væru einkavæddir og skattgreiðendur þar með losaðir undan ábyrgð á rekstri þeirra. Fulltrúar Alþýðuflokks í bankaráðum hafa svo ekki heldur legið á liði sínu þegar bætt hefur verið í launaumslagið hjá bankastjórnum í gegnum tíðina.
Í dag sumardaginn fyrsta er lögbundið frí, næsta fimmtudag 1.maí líka…
og einnig þarnæsta fimmtudag uppstigningardaginn. Þetta kemur illa við fyrirtæki þar sem viss kostnaður er því samfara að koma framleiðslu eða þjónustu af stað eftir frídaga. Þessi kostnaður lendir bæði á fyrirtækjunum og fólkinu sem þar vinnur. Fyrir því má því færa rök að fleiri frídagar fengjust ef ekki væri um lögbundna frídaga að ræða. Eða þá jafnmargir en hærra kaup. Helgidagalöggjöfin er enn eitt dæmið um að það nægir ekki að góður hugur fylgi (stjórn)málum.
VEF//ÞJÓÐ//VILJINN óskar lesendum sínum gleðilegs sumars og þakkar samfylgdina út úr vetrinum.