Miðvikudagur 23. apríl 1997

113. tbl. 1. árg.

Rétt er að benda á að sennilega er til haldbetri skýring…
á því að Sigþrúður Gunnarsdóttir er orðin verkefnisstjóri hjá tyggjósviði Umhverfismálaráðs Reykjavíkurborgar en að um venjulegan bitling (eða slummu) sé að ræða, eins og sagt var frá hér í blaðinu í fyrradag. Tyggjóið kom jú til landsins með hermönnum í seinna stríði og bæði herinn og tyggjóið eru hér enn. Sigþrúður, sem er fyrrverandi formaður Samtaka herstöðvaandstæðinga, sér nú líklega að baráttan gegn varnarliðinu er vonlaus og hefur því snúið sér að tyggjóinu. Ísland úr NATÓ og Wrigley’s burt…

Hér var um helgina staddur evrópskur sérfræðingur…
í þjóðernishyggju. Í viðtali í sjónvarpsfréttum sagði hann að Íslendingar eigi heima í Evrópusambandinu af ,,menningarlegum ástæðum. Ef þessi skoðun er ekki þjóðremba, hvað þá? Eins og önnur þjóðremba á hún sér litla stoð í veruleikanum. Nær öll frjáls menningarsamskipti Íslendinga í dag eru við Bandaríki Norður-Ameríku og Bretland. Hvort sem litið er á kvikmyndahús, sjónvarpsstöðvar, myndbandaleigur, bækur eða tímarit. Fáum Íslendingum dettur í hug að eiga slík samskipti við íbúa á meginlandi Evrópu nema hægt sé að kría út ríkisstyrki til þess arna hjá Norðurlandaráði eða einhverjum af sjóðum Evrópusambandsins.

Í Vikuritinu Vísbendingu eru eftirfarandi línur um skilyrði Samkeppnisstofnunar…
við sameiningu innanlandsflugs Flugleiða hf. og Flugfélags Norðurlands hf. undir fyrirsögninni Samkeppnisóráð: ,,Nú vill svo einkennilega til að við samruna þessara tveggja félaga er afar ólíklegt að markaðshlutdeild þeirra aukist. Þvert á móti er sennilegt að hún minnki í kjölfar afnáms sérleyfa og aukinnar samkeppni. Innanlandsflug Flugleiða hefur verið rekið með tapi síðustu ár og virk samkeppni á sér stað við annan ferðamáta svo sem akstur. Það láir enginn Flugleiðum að vilja hagræða í innanlandsfluginu því fátt réttlætir taprekstur af þessu tagi. Með fyrirhuguðum samruna var stefnt að hagræðingu í rekstri sem hefði aukið líkurnar á því að reksturinn borgaði sig. Samkeppnisráð gæti með þessum úrskurði verið að kippa fótunum undan innanlandsfluginu í þeirri mynd sem við þekkjum í dag og ekki víst að neitt betra kæmi í staðinn. Ráðið virðist með þessum úrskurði og nokkrum fyrri álitum sínum vera í allt öðrum veruleika en gildir hér á landi. Íslenskur markaður er svo lítill að að það er neytendum beinlínis í óhag að samruni fyrirtækja sé í raun hindraður með skilyrðum af þessu tagi. Það sem máli skiptir er ekki markaðshlutdeild heldur að aðgengi að mörkuðum sé óheft, ekki að búinn sé til sýndarveruleiki eins og Samkeppnisráð hefur gert.