Í Alþýðublaðinu á þriðjudaginn í fyrri viku er birt grein eftir Róbert nokkurn Pálsson…
(sem samkvæmt ljósmynd virðist vera sami maðurinn og venjulega kallar sig Róbert Marshall). Þar er fjallað á athyglisverðan hátt um stöðu Alþýðubandalagsins og sýnir þá tilvistarkreppu, sem flokkurinn á við að stríða, a.m.k. að mati greinarhöfundarins. Hann lýsir því yfir, að hann sé sammála hugmyndafræði Alþýðubandalagsins en muni hins vegar ekki taka þátt í framboði þess flokks í næstu kosningum, nema til komi sameiginlegt framboð ,,félagshyggjuflokkanna“. Róbert vill sem sagt ekki taka þátt í framboði flokksins sem hann er hugmyndafræðilega sammála, nema sá flokkur fari í sameiginlegt framboð með öðrum flokkum, sem Róbert er þá líklega hugmyndafræðilega ósammála. Hér er um allsérkennilegan málflutning að ræða og ekki að furða, að ýmsir gamalreyndir stjórnmálarefir á vinstri vængnum, svo sem Hjörleifur Guttormsson, Kristín Ástgeirsdóttir og Ögmundur Jónasson, hafi litla trú á því að nokkuð komi út úr slíkri sameiningarumræðu.
Það vekur svo athygli að Róbert sem hefur starfað sem blaðamaður á Vikublaðinu,…
málgagni Alþýðubandalagsins, starfar ekki þar lengur. Nú er spurning hvort forysta Alþýðubandalagsins hafi ekki þolað að Róbert efaðist á þennan hátt um tilvistarrétt flokksins.
Fyrsta fréttin í fréttatíma Ríkissjónvarpsins á laugardagskvöldið…
var af sameiginlegu framboði A-flokkanna í Hafnarfirði í bæjarstjórnarkosningum á næsta ári. Fréttin var í dæmigerð, bæði fyrir fréttamatið á ríkisfjölmiðlunum og sameiningarumræðuna. Í ljós kom nefnilega að fréttin snérist um bréf sem einhver forsvarsmaður í öðrum A-flokkanna hafði sent hinum flokknum þar sem hvatt var til sameiningar. Hvílík tíðindi. Viðtakandi bréfsins gat að vísu ekki tjáð sig um efni þess. Bréfið var enn í pósti.