Samtök áhugafólks um lífeyrissparnað…
voru stofnuð í gær. Á stofnfundinn mættu ríflega 500 manns. Það var ánægjulegt að sjá að fólk er enn tilbúið til að rísa upp gegn forsjárhyggjunni. Þeir sem tóku til máls á fundinum lögðu áherslu á að samtökunum væri ætlað að stuðla að fyrirhyggju fólks í lífeyrismálum. En til þess þarf að losa fólk undan forsjárhyggju lénsherranna sem ASÍ og VSÍ hafa skipað í stjórnir sameignarsjóðanna. Í lok fundarins var samþykkt ályktun gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar til nýrra laga um starfsemi lífeyrissjóða.
Jón Baldvin Hannibalsson tjáði sig um lífeyrismálin…
í útvarpi og sjónvarpi í gær. Kom á óvart að hann tók afstöðu með kerfinu, ríkisstjórninni, ASÍ og VSÍ og þar með gegn fólkinu. Jón virðist einn af þeim sem telur að öll þekking og hæfileikar til að reka lífeyrissjóði hafi með einhverjum dularfullum hætti tekið sér bólfestu í Garðastræti 41 og á Grensásvegi 16a og að almenningi sé ekki treystandi í þessum efnum. Sem kunnugt er studdi Jón ekki afnám einokunar Ríkisútvarpsins þegar til kastanna kom á Alþingi árið 1986. Furðuleg forsjárhyggja hjá manni sem kynnir sig venjulega sem frelsishetju.
Ágúst Einarsson lagði nýlega fram frumvarp á Alþingi um að launþegar…
þeirra fyrirtækja, sem skráð eru á verðbréfaþingi, skuli fá rétt til að kjósa einn fulltrúa í stjórn viðkomandi fyrirtækja. Hugmyndir þessar eru angi af skandínavískum sósíalistahugmyndum um atvinnulýðræði, sem byggja á grundvallarmisskilningi á sambandi launþega og atvinnurekenda. Grundvallaratriðið er að í fyrirtækjum, t.d. í hlutafélögum, gegnir stjórn fyrirtækis því hlutverki að gæta hagsmuna eigenda, bæði gagnvart starfsmönnum og út á við. Réttur til að kjósa í stjórn er ein mikilvægasta aðferð eigenda til að hafa áhrif á hvernig með eignir þeirra er farið. Eigendur (einstakir hluthafar eða hluthafahópar) geta, ef þeir telja það skynsamlegt, valið einhverja starfsmenn til að sitja fyrir sína hönd í stjórnum, og með sama hætti geta stjórnir ákveðið að veita starfsmönnum rétt til að tilnefna áheyrnarfulltrúa til að sitja stjórnarfundi. Þetta hefur verið gert í ýmsum fyrirtækjum hér á landi og getur verið heppilegt við ákveðnar aðstæður. Eins er algengt að starfsmenn hlutafélaga séu í hópi eigenda félags og geta þeir þá tekið þátt í kosningum til stjórnar. Hins vegar er fráleitt að skylda eigendur hlutafélaga til að kjósa fulltrúa starfsmanna í stjórnirnar, enda væri með því verið að binda hendur þeirra. Það væri jafn sérkennilegt og að skylda verkalýðsfélög til að taka a.m.k. einn fulltrúa atvinnurekenda inn í stjórnir sínar. Hitt er svo annað mál, að Ágúst Einarsson á sjálfur sæti í stjórnum ýmissa fyrirtækja, svo sem Granda hf., og honum væri að sjálfsögðu heimilt að gefa stjórnarsæti sitt eftir á næsta aðalfundi og beita afli þess hlutafjár, sem hann ræður yfir, til að fá fulltrúa starfsmanna kosinn í sinn stað. En líklega er það í þessu tilviki eins og svo mörgum öðrum að vinstri menn eru fyrst og fremst uppteknir við að segja öðrum hvað þeir eigi að gera í stað þess að gera það sjálfir.