Margt furðulegt kemur fyrir sjónir þeirra sem fylgjast með þingmálum…
á Alþingi Íslendinga. Nú fyrir skemmstu voru lagði menntamálaráðherra t.d. fram tvö frumvörp, sem ástæða er til að gera sérstakar athugasemdir við. Annars vegar er um að ræða frumvarp til íþróttalaga og hins vegar frumvarp til breytinga á lögum um skoðun kvikmynda o.fl. Frumvarp til íþróttalaga kann að virðast sakleysislegt og að sumu leyti kjánalegt, enda er þar finna ákvæði sem hljóða svo: ,,Í lögum þessum merkja íþróttir hvers konar líkamlega þjálfun er stefnir að því að auka líkamlegt og andlegt atgervi, heilbrigði og hreysti.“ Þetta er að sjálfsögðu mikil speki, og öllum mönnun ljóst að mikilvægt er að lögfesta þennan skilning á íþróttahugtakinu! Þar er líka að finna eftirfarandi: ,,Íþróttastarfsemi utan skóla byggist á frjálsu framtaki landsmanna.” Það var og. Með frumvarpinu er sem sagt lagt til að þessi fullyrðing eða lýsing á ástandi mála í landinu verði lögfest! Tilvitnuð ákvæði virðast sakleysisleg en hins vegar er full ástæða til að taka frumvarpinu sem slíku með varúð, enda er með því verið að tryggja ákveðnar leiðir fyrir hópa áhugamanna á tilteknum sviðum þjóðlífsins til að sækja fé í ríkissjóð. Með öðrum orðum er verið að lögfesta leiðir fyrir hópa, sem vilja láta aðra standa straum af áhugamálum sínum, til að ná sér í hluta af skattgreiðslum almennings.
Hitt frumvarpið, sem vikið var að hér að framan,…
felur í sér breytingu á lögum um kvikmyndaskoðun. Í því felst m.a., að sjónvarpsstöðvar þurfi að lúta sömu reglum um skoðun og kvikmyndahús og þurfi að haga vali á útsendingartímum þannig að börn sjái ekki eða heyri viðkomandi útsendingar. Nú kann að vera tilefni til að vara fólk við því ef tilteknar myndir eru taldar geta vakið óhug hjá börnum eða viðkvæmu fólki, en ekki verður annað séð en afar erfitt verði að fylgja ákvæðinu eftir, verði það samþykkt. Er það svo ekki hlutverk foreldra fremur en ríkisins að velja sjónvarpsefni handa börnum sínum? Ekki er síður ástæða til að ætla, að annað atriði í frumvarpinu verði líka mjög erfitt í framkvæmd, en það lýtur að því að menntamálaráðherra verði skylt að setja reglur um skoðun kvikmyndaeftirlitsins á tölvuleikjum. Í fyrsta lagi getur verið bæði erfitt og tímafrekt fyrir starfsmenn þessarar stofnunar að fylgjast með þeim tölvuleikjum, sem fluttir eru til landsins á diskum eða öðrum sambærilegum hætti, og í öðru lagi er ógerlegt að fylgjast með þeim leikjum, sem fólk hér á landi getur nálgast (og mun geta nálgast) á Internetinu. Því verður ekki annað séð en að ákvæði þessa frumvarps muni hafa litla þýðingu í raun, en þau kunna hins vegar að róa einhverja þrýstihópa, sem eiga erfitt með svefn vegna þess að þeir óttast að einhverjir aðrir geti skemmt sér yfir efni, sem fellur ekki að þeirra smekk.
Við þetta má svo bæta að tölvuleikir eru oft fremur…
sakleysislegir á fyrstu þrepum. Það er ekki fyrr en menn hafa náð mikilli leikni að þeir komast yfir fyrstu þrepin og komast á það stig sem býður upp á verulegt blóðbað. Það getur tekið margar vikur á ná slíkri leikni. Ef fyrrnefnt frumvarp nær fram að ganga verður kvikmyndaskoðun ríksins væntanlega að ráða sér fólk sem hefur náð mikilli leikni í tölvuleikjum og getur náð upp á efstu þrep leikjanna. Ætli ráðuneytið sé byrjað að semja auglýsinguna eftir þessu hæfileikafólki? Staðgóðrar reynslu úr spilasölum borgarinnar krafist…