Vægast sagt furðuleg frétt var í…
Ríkissjónvarpinu 7. apríl. Þar var greint frá því að félagsmálaráðuneytið og Reykjavíkurborg hefðu stofnað sjóð er ætlaður væri til að veita lán til nýsköpunar í atvinnulífinu. Sjóðurinn er sérstakur að því leyti að hann veitir karlmönnum ekki lán og tekur ekki veð í öðru en ,,hugmyndum“. Augljóst er að sjóðnum er ætlað að veita konum lán sem ekki fengju það að örðum kosti, því, eins og kunnugt er, eru þegar starfandi stofnanir hér í landinu, (nefnast t.d. bankar og sparisjóðir) sem veita þeim lán sem líklegir eru til að greiða þau til baka. Síðan þegar lánin fást ekki endurgreidd hefur sjóðurinn þann kost einan að ganga að veðum sínum sem öll liggja í skýjaborgum. Enn annað undrunarefni er það að opinberir aðilar stofni sjóð sem sérstaklega á að lána öðru kyninu en ekki hinu. Sé það svo, að konur séu betri lántakendur en karlar munu bankar og sparisjóðir eflaust veita þeim hagstæðari kjör en körlum. Einkaaðilum er nefnilega fullkomlega heimilt að mismuna öðru fólki eftir kynferði, en það er hinu opinbera óheimilt.
Á Alþingi og í ríkisstjórn er nú verið að takast á um það…
hversu langt eigi að ganga í einkavæðingarátt á fjármagnsmarkaði. Viðskiptaráðherra hefur lagt fram frumvarp þar sem gert er ráð fyrir að ríkisviðskiptabönkunum verði breytt í hlutafélög og einkaaðilar geti á næstu fjórum árum eignast 35% hlut í þeim. Innan þingflokks sjálfstæðismanna munu vera margir, sem telja rétt að ganga mun lengra í þessum efnum, en andstaða við einkavæðingu er hins vegar enn mikil innan framsóknarflokksins. Mikil hætta virðist vera á því að afturhaldssömustu þingmenn Framsóknarflokksins verði ofaná í þessu máli og verður fróðlegt að sjá hvort stuðningsmenn einkavæðingar innan Sjálfstæðisflokksins láta beygja sig í þessu máli. Þá verður líka fróðlegt að fylgjast með því hvernig þingmenn Alþýðuflokksins taka á þessu máli, en sumir þeirra að minnsta kosti láta í veðri vaka, við viss tækifæri, að þeir séu hinir einu sönnu talsmenn einkaframtaks og atvinnufrelsis í landinu.