Menn hafa löngum skemmt sér við að spyrja hvað þurfi marga menn…
af ákveðnu þjóðerni eða úr ákveðinni starfsgrein til að skipta um ljósaperu. Svörin draga svo dár að einkennum manna. Af því að á þessum síðum er oft rætt um frjálshyggju er óvitlaust að að upplýsa hversu marga frjálshyggjumenn þarf til að skipta um ljósaperu. Engan, markaðurinn sér um það!
Flokkarnir fjórir sem standa að R-listanum…
hafa samþykkt að halda samstarfinu áfram í næstu kosningum sem fara fram í maí á næsta ári. Þeir hafa jafnframt skorað í Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að skipa 8. sæti listans. Þetta er nokkuð undarlegt þar sem fulltrúaráðs Alþýðuflokksins hefur samþykkt tillögu um að viðhafa opið prófkjör á vegum R-listans. Það er ekki vaninn að flokkarnir segi fólki hvað það eigi að kjósa í prófkjörum en það gera þeir auðvitað með því að skora á Ingibjörgu að taka 8. sæti listans.
Fyrir nokkru birtum við tvo kafla úr ræðu Ingibjargar Sólrúnar…
á þingi Rauða krossins og Rauða hálfmánans 17. mars síðastliðinn. Þar ræddi hún um möguleikana sem felast í frjálsri samhjálp. Hér er einn kafli til viðbótar: ,,Með auknum frítíma fólks á Vesturlöndum ættu möguleikarnir á sjálfboðaliðastarfi að aukast. Til þess þarf þó ákveðna hugarfarsbreytingu hjá þeim sem hingað til hafa talið að opinberar stofnanir með fólk á launum sæju um hvers manns vanda… En eigi þetta að takst verður verkefnaval og vinnubrögð að vera í takt við tímann og taka mið af þeim möguleikum sem búa í hinu sveigjanlega eðli frjálsra félagasamtaka, persónulegri nálægð og mannlega þættinum sem er innbyggt í starfsemi og nálgun þeirra…Í hjálparstarfi slíkra samtaka búa menningarleg og siðferðileg verðmæti sem eiga að geta veitt þeim sem með þeim starfa persónulega fullnægju og tilfinningu fyrir eigin gildi.“