Nú er búið að úthluta úr ýmsum opinberum sjóðum…
sem styrkja listamenn þetta árið. Birtir eru langir listar yfir þá sem hljóta þessa styrki og vafalaust þykir mörgum sem þarna sé um þjóðþrifaverk að ræða. Þarna fái listamenn tækifæri til að iðka list sína án þess að hafa áhyggjur af salti í grautinn. Þetta er vissulega falleg mynd en ekki er allt sem sýnist. Nær tvöfalt fleiri listamenn sækja um styrkina en fá. Það er auðvitað ljóst að ekki er hægt að veita öllum styrk enda myndu biðraðirnar eftir styrknum vafalaust lengjast ef svo væri. En er það sanngjarnt að ríkið veiti útvöldum listamönnum styrk? Hvers eiga hinir að gjalda? Listamenn eiga eins og aðrir framleiðendur í keppni um viðskiptavini. Það er dágott forskot sem málari, sem hlýtur náð fyrir augum úthlutunarnefnda hins opinbera, fær á keppinaut sinn. Á meðan sá sem engan styrk hlýtur þarf að vinna aukavinnu til að hafa í sig og á getur styrkþeginn leitað uppi viðskiptavini og komið sér á framfæri. Hér er um augljóst óréttlæti að ræða. Hvar eru svonefnd samkeppnisyfirvöld? Raunar hefur Gunnar Smári Egilsson, rithöfundur og bókaútgefandi, sent Samkeppnisstofnun, kvörtun vegna þessa máls og bent á hve óeðlilegt það sé að ríkið niðurgreiði launakostnað bókaforlaga. En styrkir til rithöfunda eru auðvitað ekkert annað en niðurgreiðslur sem skattgreiðendur eru látnir greiða fyrir.
Niðurgreiðslur, eins og listamannalaunin eru, leiða til þess…
að fleiri en efni standa til streyma inn á sviðið sem niðurgreiðslan tekur til. Með öðrum orðum færa menn sig úr arðbærum störfum í óarðbær. Drátthagur iðnverkamaður veltir því fyrir sér hvers vegna hann eigi að strita við færibandið og greiða skatta sem fara m.a. í listamannalaun þegar hann gæti sjálfur verið á listamannalaunum. Hér er alls ekki verið að gera lítið úr starfi listafólks heldur einfaldlega verið að benda á að niðurgreiðslur hafa ekki aðeins áhrif á þá sem taka við þeim heldur brengla þær verðmætamat fólk og eru ósanngjarnar gagnvart þeim sem engar niðurgreiðslur fá.
Talandi um niðurgreiðslur má benda á eitt mál sem litla…
athygli hefur hlotið en það eru niðurgreiðslur á leikskólavist barna. Foreldrar sem vilja vera heima með börn sín eru skattlagðir svo að niðurgreiða megi leikskólavistun annarra barna. Niðurgreiðsla sveitarfélaga með hverju leikskólaplássi mun vera um 250 þúsund krónur á ári. Af hverju fá foreldrar sem vilja gæta barna sinna sjálfir ekki sambærilegan styrk? Einfaldast væri þó að jafna stöðu foreldranna með því að hætta þessum niðurgreiðslum alveg og lækka skatta á móti.