Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, hefur…
farið mikinn í fjölmiðlum undanfarna daga vegna einhvers viðskiptakorts sem nokkur fyrirtæki hafa gefið út í sameiningu. Helst mætti ætla á Jóhannesi að neytendur væru neyddir til að nota kortið en svo mun ekki vera. Hvernig væri nú að Jóhannes og Neytendasamtökin snéru sér að einhverjum málum sem varða neytendur í alvöru eins og skylduáskriftinni að Ríkisútvarpinu, skyldugreiðslum í ákveðna lífeyrissjóði og verkalýðsfélög, einokuninni í smásölu áfengis og háum sköttum svo fátt eitt sé nefnt? Annars hefur þessi umræða um viðskiptakortin tekið á sig fleiri undarlegar myndir. Þannig hringir fólk í útvarpsþætti og kvartar undan því hversu léleg þessi kort eru og fordæmir um leið að 75 ára og eldri fengu ekki send slík kort! Þetta minnir á karlinn sem kvartaði undan óætum mat á veitingahúsi og bætti svo við að sér þætti heldur naumt skammtað. Þetta minnir einnig á fólkið sem hringir í kjaftaþættina í útvarpinu og kvartar yfir því að ekki sé nema 20-30% afsláttur á útsölum og hringir svo daginn eftir og kvartar yfir því hve há álagning hljóti að vera í verslunum ef hægt sé að gefa 70-80% afslátt á útsölum.
Ríkisafskipti leiða alltaf…
af sér misnotkun. Þannig hafa sögur gengið um að fólk bjóði lyfsölum að kaupa af sér viðskipti svo lyfsalinn fái hlut Tryggingarstofnunar í greiðslu lyfsins. Fyrir lyf sem kostar 10 þúsund krónur og Tryggingarstofnun greiðir 9 þúsund í og sjúklingi er ætlað að greiða 1 þúsund segir sagan að sjúklingurinn geti fengið lyfið og 2 þúsund kall í kaupbæti. Önnur saga er af bjórinnflytjendum en þeir munu niðurgreiða stórar pantanir svo sem fyrir árshátíðir félagasamtaka til að tryggja stöðu sína í hillum verslana ÁTVR en aðeins mest seldi bjórinn hlýtur náð fyrir augum hinnar almáttugu ríkiseinkasölu áfengis.