Það er litlu logið um þjóðrembu landans, eins og ku víst hafa komið fram…
í viðtalsþætti Jóns Baldvins Hannibalssonar, er þáttastjórnandi ræddi við Gunnar Dal. Í ljós kom að Ísland þýðir í raun Guðsland, og við því frekar Guðslendingar en Íslendingar. Í lesendadálki DV 12. mars bætir svo einhver um og vill breyta nafni Íslands í Guðseigið-land, og þar með yrðum við sem landið búum Guðseigin-lendingar. Ekki er vitað hvort hér búi að baki einhver Ísraelsöfund eða Messíaskomplex, en þó má sjá þann ljósa punkt í þessari umræðu að ástandið er þó ekki verra en svo að ýmsir virðast gefa sér tíma til að ræða svona fráleitt rugl líkt og einhver alvara væri á ferð.
Alþýðubandalag gefur út vikublað á kostnað almennings…
til þess að koma málstað sínum á framfæri. Árangurinn af þessu starfi þeirra er umdeilanlegur, enda mun útbreiðslan vera alllítil. Stundum reyna blaðamenn blaðsins að vekja athygli á því með miklum uppsláttarfréttum. Vinnan á bak við þær fréttir virðist oft harla einkennileg og stundum lítur út fyrir að fréttirnir eigi sér enga stoð nema í hugarheimi blaðamannanna. Þannig var sagt frá því í blaðinu um daginn, að Samband ungra framsóknarmanna hygðist segja sig úr Framsóknarflokknum vegna óánægju með stöðu LÍN. Þetta væri að sjálfsögðu stórfrétt, ef einhver fótur væri fyrir þessu. Svo virðist ekki vera, enda hefur formaður SUF og stjórnarmenn borið þetta til baka og blaðamenn Vikublaðsins ekki getað stutt skrif sín með neinum haldbærum gögnum. Blaðamaður Vikublaðsins hefur hins vegar greint frá því í Alþýðublaðinu, að rætt hafi verið við tvo þingmenn framsóknar og einn ungliða vegna málsins. Þá sé hins vegar ekki hægt að nafngreina. Ekki er hins vegar nein sérstök ástæða til að taka blaðamanninn alvarlega og sennilegt virðist að um hreinan uppspuna sé að ræða. Svipuð vinnubrögð áttu sér stað viku áður í Vikublaðinu þar sem verið var að fjalla um einhver innanhúsmál í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Einhver ummæli voru eignuð ónafngreindum ungum mönnum, en orðalag þeirra ummæla var með þeim hætti, að ólíklegt er að hægri sinnar eða frjálshyggjumenn hafi tekið þannig til orða. Líklegast er að þar hafi einnig verið um hugarburð og skáldskap blaðamanna Vikublaðsins að ræða, eins og í tilviki ungu framsóknarmanna.