Hið merka félag, Íþróttafélag Reykjavíkur,…
varð 90 ára á dögunum. Þegar það hóf starfsemi sína samdi það við bæjarstjórn (Reykjavík var ekki orðin virðuleg borg í þá tíð) um afnot af íþróttahúsi gegn greiðslu. Nú hafa aðstæður breyst og fjöldi margvíslegra félaga starfar í borginni að hluta til á kostnað borgarsjóðs, þ. e. skattgreiðenda. Þannig var Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur t. a. m. nýlega að veita rúmum 20 milljónum til ýmiss konar félagsstarfs. Allt er þetta starf vafalítið af hinu góða, en það kallar á hærri skatta. Frá því að ÍR tók til starfa og hið opinbera sinnti færri verkefnum hafa útgjöld hins opinbera margfaldast. Skattbyrði Íslendinga hefur m. ö. o. margfaldast. Margir styðja opinber útgjöld á borð við þau sem hér eru eru nefnd á þeim forsendum að annars legðist starfsemin af. Sú yrði á hinn bóginn ekki raunin um það sem fólk vill að haldi áfram. Þannig hafa athuganir á framlögum til góðgerðamála í Bandaríkjunum sýnt, að stuðningur fólks við slík málefni helst mjög í hendur við tekjur þess. Hafi fólk meira til ráðstöfunar ver það meiru til þess sem það vill að sé áfram fyrir hendi og lægri skattar þýða jú hærri ráðstöfunartekjur.
Viðskiptaprófessorinn og þingmaðurinn Ágúst Einarsson…
virðist því miður ætla sér að vera í hlutverki stjórnmálamannsins en ekki fræðimannsins í umræðum á Alþingi um löngu tímabærar breytingar á ríkisbönkunum í hlutafélög. Hann fór í gær mikinn í gagnrýni sinni á frumvarp viðskiptaráðherra og var greinilega að undirbúa það að hengja sig í tæknileg útfærsluatriði þegar að atkvæðagreiðslu kemur og vera á móti breytingunni. Loksins þegar ríkisstjórnin er komin fram með þetta frumvarp ætlar hann að líta framhjá aðalatriði málsins, sem er það að verið er að undirbúa einkavæðingu í fjármálakerfi landsins, en þvælast í staðinn fyrir með umræðum um fjölda bankastjóra, hámarkseignarhlutdeild og aðrar aðferðir sem beita hefði mátt við einkavæðinguna. Viðskiptaprófessorinn ætlar að stunda pólitískt vopnaskak í stað þess að taka þátt í að breyta viðskiptaumhverfinu á Íslandi til hins betra.
Afstaða Jóhönnu Sigurðardóttur Þjóðvakaleiðtoga …
til einkavæðingar ríkisviðskiptabankanna er óbreytt frá því hún stöðvaði hana í tíð síðustu ríkisstjórnar og kemur því minna á óvart en sama afstaða félaga hennar prófessors Ágústs, sem getið er um hér að ofan. Hún er alfarið á móti einkavæðingunni en er nú búin að finna það út að það verði að ,,samkeppnisvæða“ bankakerfið, en einkavæðingin sé ekki skref í þá átt! Framkvæmd samkeppnisvæðingarinnar er vitaskuld nokkuð óljós, en lauslega gengur hún út á það að ríkið reki bankana áfram en tryggi samt með einhverjum dularfullum hætti samkeppni. Þessar möppudýralausnir félagshyggjufólksins eru alveg óþarfar og til óþurftar. Verði fjármagnsmarkaðurinn í höndum einkaaðila er deginum ljósara að á honum mun ríkja samkeppni, en verði stærstur hluti hans áfram í höndum ríkisins verður hann áfram hluti af pólitísku útlánakerfi sama hvaða platlausna félagshyggjumenn kunna að leita.