Föstudagur 14. mars 1997

73. tbl. 1. árg.

Djarfar hugmyndir íhaldsmanna í Bretlandi…
koma á óvart í ljósi þess að stutt er í kosningar þar í landi og að þeir eru langt undir í skoðanakönnunum. Yfirleitt lofa menn auknum ríkisútgjöldum þegar svo er komið og ætla að gera allt fyrir alla fyrir ekkert. En nú hafa íhaldsmenn, sem verið hafa við stjórnvölinn í 18 ár, lagt fram tillögur um gjörbyltingu á eftirlaunakerfinu. Framtíðarsýn þeirra er að eftirlaun af hálfu ríkisins leggist af en í stað þess leggi menn fyrir til elliáranna hjá einkaaðilum. Fólk mun því eiga sinn hlut í sjóði, í stað þess að eiga aðeins von um að ríkið muni geta haldið því uppi í framtíðinni. Ríkið mun aðeins vera bakhjarl ef illa fer og styðja þá sem raunverulega þurfa á aðstoð að halda í stað þess að halda öllum uppi eins og nú er. Áætlað er að það taki nokkra áratugi að skipta alveg um kerfi og mun kostnaðurinn verða nokkuð hærri á meðan umskiptin eiga sér stað, en lækka svo verulega. Tímaritið Economist er ánægt með þessar tillögur og vonast til að Verkamannaflokkurinn muni gera þær að sínum eftir kosningar, sem hann virðist muni vinna, þótt hann hafni tillögunum nú í kosningaslagnum.

Umræðan um afnám einkaleyfis ríkisins…
til að selja áfengi hefur gefið fólki enn eina sönnun þess að Páll Pétursson er með allra afturhaldssömustu (þing)mönnum landsins. Hann má ekki heyra á breytingar minnst án þess að reyna að koma í veg fyrir þær. Þetta átti á sínum tíma við um litasjónvarpið, sem honum tókst að vera á móti, og nú vill hann sem sagt koma í veg fyrir að einkaaðilar fái leyfi til að selja áfengi í þar til gerðum verslunum. En hve lífið væri mikið notalegra ef Páll hefði fengið að ráða á sínum tíma og við þyrftum ekki að horfa á sjónvarpið í lit en hefðum það aðeins í sauðalitunum. Og nöturleg væri sú tilfinning að geta keypt áfengi annars staðar en í einkasölu ríkisins. Mikið er gott að hafa menn eins og Pál til að hugsa fyrir sig.