Ríkissjónvarpið fjallaði um einkavæðingu í Kastljóssþætti…
í gærkvöldi. Var meðal annarra rætt við Davíð Oddsson, forsætisráðherra. Það var leiðinlegt að sjá að hann hefur smitast af áróðri ríkisafskiptasinna sem telja samruna Stöðva tvö og þrjú réttlæta með einhverjum hætti tilveru Ríkisútvarpsins. Sá samruni var ekkert annað en staðfesting á þeirri staðreynd að á íslenskum sjónvarpsmarkaði er ekki rúm fyrir tvö öflug almenningsfyrirtæki við hlið Ríkisútvarpsins. Ef ríkið hættir að reka sjónvarp skapast rúm á markaðinum sem einstaklingar myndu fylla. Einkafyrirtæki verða að ávinna sér hylli neytenda til að öðlast fótfestu á markaði. Ríkisfyrirtæki geta stjórnmálamenn og sérhagsmunahópar hins vegar misnotað og sent skattgreiðendum reikninginn. Áhrif almennings á fjölmiðlun eru mun betur tryggð með tveimur einkareknum sjónvarpsstöðvum en einni einkarekinni og annarri rekinni af ríkinu. Samruni Stöðva tvö og þrjú er því enn ein ábendingin til stjórnmálamanna um að þeir eigi að láta almenningi eftir rekstur fjölmiðla. Að lokum: Vill einhver skipta á DV eða Mogganum og ríkisdagblaði?
Sighvatur Björgvinsson, þingmaður Alþýðuflokks, flutti ræðu…
á Alþingi í fyrradag um fyrirhugaðar breytingar ríkisstjórnarinnar á tekjuskatti einstaklinga. Þar talaði hann um að einhverjir hópar fengju mest ,,út úr kerfinu“ við þessar breytingar. Þetta er einkennilegt viðhorf og ekki annað á Sighvati skilja en að hann líti á allar tekjur mannna sem eign ,,kerfisins” og kerfið láti menn svo hafa vasapening. Hingað til hefur það verið álitið að laun manna væru þeirra eign og ríkið tæki svo skatta af þeim. En Sighvatur er greinilega á öðru máli. Að hans mati eru laun manna eign ríkisins og menn mega þakka fyrir hverja krónu sem þeir fá til baka ,,úr kerfinu“.
Umræðan um skattabreytingar ríkisstjórnarinnar hefur tekið á sig fleiri…
undarlegar myndir. Þannig þykjast ýmsir stjórnmálamenn og verkalýðsforstjórar vera hissa á því að skattalækkanirnar ,,skili” lægst launaða fólkinu litlu. En hvernig er hægt að lækka tekjuskatta á þeim sem greiða enga slíka skatta?!! Því hefur verið komið svo fyrir á undanförnum árum að einungis þriðjungur framteljenda greiðir tekjuskatt þegar tillit hefur verið tekið til bóta. Þessu hefur verið svona fyrir komið að kröfu sama fólks og er nú með undrunarsvip yfir áhrifum lækkunar á skattprósentunni úr 42 í 38% á næstu árum. Þetta sama fólk hefur einnig heimtað tekjutengingu allra hluta og kvartar svo yfir jarðaráhrifum skatt- og bótakerfisins eins og minnst hefur verið á hér á þessum síðum áður.