Helsta umkvörtunarefni námsmannasamtakanna vegna…
Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefur oft snúið að einstæðum foreldrum sem sagt er að hafi verið hraktir frá námi með breytingum á lögum um LÍN árið 1992. Þetta kom m.a. fram í ,,skýrslu“ frá Stúdentaráði haustið 1996. Í skýrslunni var ruglað saman fjölda námsmanna og fjölda lánþega hjá LÍN en margir námsmenn taka engin lán. Þannig stunduðu 1.457 námsmenn með börn nám námsárið 1991-1992 án þess að taka lán og 1.631 árið 1992-1993. Tvö dæmi um kjör einstæðra forledra í námi fylgja hér til samanburðar við einstæða foreldra á vinnumarkaði:
(1) Einstætt foreldri með eitt barn getur fengið 79. þúsund krónur á mánuði frá LÍN. Þegar tekið er tillit til meðlags og barnabóta þarf einstætt foreldri á vinnumarkaði að hafa 99. þúsund í mánaðarlaun til að hafa sömu ráðstöfunartekjur.
(2) Einstætt foreldri með tvö börn getur fengið rúmlega 103. þúsund krónur á mánuði frá LÍN. Þegar tekið er tillit til barnabóta og meðlaga getur ráðstöfunarfé því verið um 160. þúsund krónur á mánuði. Einstætt foreldri á vinnumarkaði þarf að hafa um 160. þúsund krónur í laun til að hafa sömu ráðstöfunartekjur.
Eru þessi dæmi líkleg til að hrekja einstæða foreldra frá námi og út á vinnumarkaðinn þar sem nú er tekist á um hvoru megin 70. þúsund króna lægstu laun eigi að vera?
Svavar Gestsson, menntamálaráðherra og Ólafur Ragnar Grímsson, fjármálaráðherra,…
létu hækka námslán umtalsvert í valdatíð sinni árin 1988-1991. Til að fjármagna þessa hækkun létu þeir Lánasjóðinn taka lán með 7-9% vöxtum sem sjóðurinn lánaði svo út til námsmanna án vaxta. Alls tók sjóðurinn 4,5 milljarða króna í lán á árunum 1989-1991. Þessi lántaka á þátt í því að eiginfjárstaða sjóðsins hefur rýrnað undanfarin ár. Til fróðleiks má geta þess að lán með 9% vöxtum tvöfalda sig á aðeins átta árum. Það er því hverju mannsbarni ljóst að með sama framhaldi, þ.e. fjáraustri úr sjóðnum sem fjármagnað var með lánum á 7-9% vöxtum, hefði sjóðurinn stefnt beina leið á hausinn.Í skýrslu Stúdentaráðs er því engu að síður haldið fram að Lánasjóðurinn ,,hafi staðið mjög sterkt 1991” og að ,,björgunaraðgerðir hafi verið óþarfar“. Annað hvort beitir höfundur skýrslu Stúdentaráðs, Dagur B. Eggertsson, vísvitandi blekkingum eða honum þykir í góðu lagi að sjóðurinn fari á hausinn að nokkrum árum liðnum og skuldirnar lendi á skattgreiðendum. Nema hvort tveggja sé!