18. febrúar 1997: BSRB er þessa dagana með auglýsingaherferð í fjölmiðlum,…
þar sem ýmis áhugamál Ögmundar Jónassonar, formanns bandalagsins eru reifuð. Kostnaðurinn við herferðina lendir svo á almennum félagsmönnum í BSRB sem ráða engu um það hvort þeir greiða félagsgjöld til bandalagsiins eður ei. Það er viðbúið að auglýsingar BSRB væru ekki eins litaðar af pólítískum skoðunum formannsins ef fólk gæti sagt sig úr þessum félagsskap. Burtséð frá þeim sjálfsögðu mannréttindum að fólk ráði því í hvaða félögum það er, er sá möguleiki greinilega nauðsynlegt aðhald fyrir félög sem stýrt er af mönnum sem eiga bágt með að fara stillilega með vald sitt.
18. febrúar 1997: Benjamín H. J. Eiríksson tjáir sig nokkuð,…
um kjarasamninga í ævisögu sinni sem kom út fyrir síðustu jól og skráð var af Hannesi H. Gissurarsyni, prófessor, og var raunar ein af metsölubókum síðasta árs. Gefum Benjamín orðið (bls. 278): ,,Kaupgjaldssamningar á Íslandi hafa allt fram á síðustu ár minnt mig á smásögu eftir Ignazio Silone. Fátækir bændur og ríkur landeigandiskiptu með sér vatni úr fjallalæk, sem féll um hið þurra land þeirra. Deilunni um skiptingu vatnsins lauk með því, að hvor aðili skyldi fá tvo þriðju hluta vatnsins! Um þetta var samið. Allir voru ánægðir. Landeigandinn tók fyrst sína tvo þriðju hluta, síðan fengu bændurnir sitt. Ef launþegasamtökin láta sér aðeins nægja það, sem fæst í eðlilegri framvindu, þá verða kjarabæturnar ærnar. Aukin framleiðni ætti að geta numið að meðaltali um 2% á ári á Íslandi. Þegar litið er yfir langa ævi þjóðarinnar og horft til framtíðar, til næstu tíu, tuttugu eða þrjátíu ára, sést, að þetta er ekkert lítilræði. 2% á ár nægja til þess að margfalda umbun mannlegrar fyrirhafnar á tíma, sem sögulega er litlu lengri en augnablikið eitt. En sumum nægir þetta ekki. Þeir kunna annað ráð betra: Fundarsamþykkt um almenna kauphækkun, 10%, 20%, 30%. Hvað eru aukin afköst vinnunnar með betri vélum og betri skipulagningu hjá verulega kröftugri fundarsamþykkt? Þegar afleiðingarnar fara að segja til sín, atvinnurekandinn fær styrk eða gengið er lækkað, skortir lýðskrumarana kjark til að ganga hina raunverulegu leið út úr ógöngunum, að láta fundarsamþykktina ganga til baka, en snúa sér að lausn raunverulegra mála, að því að efla framfarir.“