16. febrúar 1997: Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík,…
er sjötugur í dag. Í afmælisútgáfu Gjallarhorns, fréttabréfs félagsins, er viðtal við Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formann Heimdallar. Meðal þess sem Kjartan er spurður um er hvers vegna frjálslyndar stjórnmálaskoðanir hafi minni hljómgrunn í dag en á síðasta áratug. Kjartan svarar: ,,Ég er alveg ósammála því að svo sé. Ég held að þær eigi að minnsta kosti jafn góðan og jafnvel miklu betri hljómgrunn í dag en áður. Þær hafa hins vegar náð svo hressilega yfirhöndinni að þær skoðanir sem áður þóttu brjóta í bága við meginsjónarmiðin eru í dag meginsjónarmiðin. Í dag er miklu meiri skilningur á eðlilegum ákvörðunum í efnahags- og atvinnumálum. Frelsi í atvinnulífinu hefur stóraukist. Til dæmis mun vinstri meirihlutinn í borgarstjórn líklega telja það sér helst til ágætis í næstu kosningum hvaða fyrirtæki hann hefur einkavætt. Það gæti hugsanlega villt um fyrir mönnum að miðjan hefur færst langt til hægri. Það er ekki minnsta afrekið í þessari hugmyndabaráttu. ,,Villta vinstrið“ er varla til nema í draumórahugmyndum sem enginn tekur alvarlega.”
16. febrúar 1997: Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Þjóðvaka, ritaði grein í Morgunblaðið…
í gær þar sem hún fjallar um laun bankastjóra ríkisbankanna og fárast yfir að reikningurinn fyrir hinum himinháu launum þeirra og rausnarlegum lífeyriskjörum lendi á skattgreiðendum. Bíðum nú við. Var það ekki Jóhanna sem var helsti Þrándur í Götu þess að ríkisbankarnir væru einkavæddir á síðasta kjörtímabili og skattgreiðendur þar með losaðir undan þeim ábyrgðum sem ríkisrekstri bankanna fylgir?