5. febrúar 1997:Í Dagsljósi Ríkissjónvarpsins í fyrrakvöld …
fjallaði Kolfinna Baldvinsdóttir um nýjar tillögur stjórnar ÁTVR sem miða að því af afnema í skrefum það sovéska fyrirkomulag sem Íslendingar búa við í verslun með áfengi. Kolfinna tók nokkra krata og framsóknarmenn tali sem allir voru andvígir því að landsmenn fái að ráða því sjálfir hvar og hvenær þeir kaupa sér bjórdós. Það er sem betur fer sjaldgæft að svo einlit umræða sé borin á borð fyrir alþjóð en þó eru þættir í Ríkisútvarpinu eins og Samfélagið í nærmynd, Laufskálinn og Víðsjá sem sérhæfa sig í að halda félagshyggju að fólki. Það mætti stundum halda að umsjónarmenn þessara þátta setji það sem skilyrði að viðmælendur sínir séu opinberir starfsmenn sem geti kvartað og kveinað yfir sparnaði hjá ríkinu.
5. febrúar 1997:Tillögur Sambands ungra sjálfstæðismanna um tekjuskattskerfið …
hafa vakið nokkra athygli að undanförnu. Lausnin, sem þar er boðið upp á, er betri en núverandi kerfi, en samt sem áður eru verulegir gallar á tillögunum. Fyrst og fremst má nefna að tvö skattþrep verða fyrir hendi í kerfinu, sem flækir framkvæmdina og er í sjálfu sér óréttlátt. Meðan tekjuskattur er greiddur sem hlutfall af launum er í raun um stighækkandi tekjuskatt að ræða. Því hærri laun sem menn fá þeim mun hærri skatta borga þeir. Þessi stigmögnun er svo stóraukin með tveimur þrepum. Þá eru enn inni í tillögunum miklar bætur til barnafólks auk þess sem gert er ráð fyrir sérstökum skattaafslætti til húsbyggjenda. Millifærslur og skattaleg mismunun af þessu tagi er óeðlileg. Heppilegra væri að afnema tekjuskattinn eða fara með hann niður í lágt hlutfall og afnema allar bætur og undanþágur. Reiknað hefur verið út að hægt væri að fara með hlutfallið niður í 15% ef þetta yrði gert, og myndi ríkissjóður þó engu tapa. Það er ánægjulegt að ungir sjálfstæðismenn hafa lagt vinnu í að móta hugmyndir um úrbætur í skattkerfinu, en ganga þarf miklu lengra ef búa á til einfalt skattkerfi.