4. febrúar 1997:Stuðningur ríkisins við útflutning…
er líklega sú gerð afskipta af atvinnulífinu sem sjaldnast er gagnrýnd. Í meginumfjöllun nýjasta tölublaðs The Economist er slíkt hátterni þó harðlega gagnrýnt og talið hafa leitt af sér mikla spillingu. Bæði ríkisstjórn Bretlands og núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa þurft að svara alvarlegum ásökunum vegna þessa. Auk þess þykir tímaritinu að ekki hafi verið sýnt fram á að árangur af þessum afskiptum ríkisins sé nægur, ef þá einhver. Ríkisstofnanir hafi lítið vit á því hvaða vöru sé best að kynna og jafnvel þótt þær viti hugsanlega hvað væri rétt að gera sé eins víst að atkvæðaveiðar spilli fyrir á þessu sviði eins og öðrum. Svo er ríkið ekki hagsýnt frekar en fyrri daginn. Herkostnaður merkantílismans, eins og blaðið kallar þetta, hleypur á milljörðum dala.
4. febrúar 1997:Eingöngu þingkonu tímaskekkju…
þeirrar sem Kvennalistinn heitir gat komið á óvart fylgishrap flokksins í skoðanakönnun sem birtist í DV í gær. Aðrir eru vitaskuld löngu búnir að átta sig á því að jafnrétti næst ekki fram með því að beita misrétti. Þingkonan sem um ræðir, Guðný Guðbjörnsdóttir, telur undarlegt að áherslur þeirra í umhverfis- og kvótamálum hafi ekki komist sterkt í gegn“. Það skyldi þó ekki vera að þetta sé bara enn einn misskilningurinn og fólk hafi einmitt áttað sig á félagshyggju Kvennalistans í þessum málaflokkum sem öðrum.