3. febrúar 1997: Afskipti japanska ríkisins af efnahagsmálum þar í landi…
voru fyrir nokkrum árum álitin staðfesting þess að ríkið gæti haft jákvæð áhrif á þessi mál ef stjórnvöld gættu þess eingöngu að hafa ríkisafskiptin réttrar gerðar. Síðan hefur hallað undan fæti í efnahagslífi Japans og þótt landið sé enn auðugt eru allir sammála um að gagngerra breytinga sé þörf vilji Japanir ekki að dragast aftur úr. Tímaritin The Economist og Business Week hafa á síðustu vikum verið að fjalla um vandann sem blasir við Japan og fagna eindregið þeirri leið sem forsætisráðherra landsins Ryutaro Hashimoto hyggst fara út úr ógöngunum. Fyrstu breytingarnar hafa þegar átt sér stað, en forsætisráðherrann hyggst skera verulega niður það reglugerðabákn sem byggt hefur verið upp og kemur á mörgum sviðum í veg fyrir samkeppni og ýtir undir sóun verðmæta. Það sem helst er litið til á þessari stundu er fjármagns- og tryggingamarkaðurinn, land- og sjóflutningarnir, símamarkaðurinn og smásöluverslunin.
Mánudagur 3. febrúar 1997
34. tbl. 1. árg.