26. janúar 1997: Alþýðubandalagið hélt miðstjórnarfund í dag…
þar sem samþykkt var að afstaða flokksins til aðildar Íslands að Evrópusambandinu væri óbreytt – aðild kæmi ekki til greina. Margrét Frímannsdóttir, sem er formaður Alþýðubandalagsins, sagði þó eftir fundinn að nú mætti ræða afstöðuna til Evrópusambandsins í flokknum. Vá! Hér eru meiri háttar tíðindi á ferðinni og greinilegt að Hjörleifur Guttormsson hefur gefið eftir frá því hann lét eftirfarandi orð falla: Við álítum, að rétt sé og sjálfsagt að leyfa ekki umræður né gefa fólki kost á að velja um neitt nema á grundvelli sósíalismans,“ sagði Hjörleifur. Nema Hjölli hafi áttað sig á því að Evrópusambandið og sósíalisminn eiga ýmislegt sameiginlegt!
26. janúar 1997: Það var tveggja tíma umræðuþáttur um fiskveiðistjórnun…
í Ríkissjónvarpinu í dag. Langt er síðan jafnafdráttarlaus niðurstaða hefur fengist í umræðuþætti í íslensku sjónvarpi. Um tuttugu manns tóku til máls og flestir sögðu núverandi aflahlutdeildarkerfi með frjálsu framsali bestu leiðina til að hámarka arðinn af fiskistofnunum. Einkum vakti þó framganga Orra Haukssonar, verkfræðings, athygli en hann skýrði á einfaldan hátt hvaða afleiðingar aukin skattheimta (veiðileyfagjald) á sjávarútveginn gæti haft í för með sér. Allt frjálslynt fólk hlýtur að fagna því að brotist hafi verið úr viðjum þeirrar einhæfu umræðu um fiskveiðistjórnunina sem ritstjórn Moggans, skrafskjóður í Seðlabanka og Háskólanum og fleiri talandi stéttir á kontórum og kaffihúsum Reykjavíkur hafa haldið að þjóðinni undanfarið.