Litlu og ómerkilegu málin í pólitíkinni segja oft mest.
Þannig er það alkunna að frambjóðendur viðra helstu skrautfjaðrir sínar en fela hinar.
Einn af nýju stjórnmálaflokkunum í ár er Viðreisn sem býður fram til Evrópuþingsins. Í dag var kynntur framboðslisti flokksins fyrir norðvesturkjördæmi.
Þar skipa efstu sæti samkvæmt tilkynningu sem send var fjölmiðlum samkvæmt frétt Eyjunnar.
- Gylfi Ólafsson, heilsuhagfræðingur, Ísafirði
- Lee Ann Maginnis, verkefnastjóri, Blönduósi
- Sturla Rafn Guðmundsson, svæðisstjóri RARIK á Vesturlandi
- Lísbet Harðardóttir, málari, Ísafirði
- Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson, lögfræðingur, Blönduósi
En Gylfi býr bara alls ekki á Ísafirði heldur er hann til heimilis í öðru kjördæmi. Og svo er um fleiri frambjóðendur. Þeir búa bara alls ekki þar sem þeir eru sagðir búa heldur á stöðum sem Viðreisn hefur þótt ástæða til að leyna.
Á vef Viðreisnar var þetta „leiðrétt“ í dag og þar segir nú:
- Gylfi Ólafsson, heilsuhagfræðingur, frá Ísafirði
- Lee Ann Maginnis, verkefnastjóri, Blönduósi
- Sturla Rafn Guðmundsson, svæðisstjóri RARIK á Vesturlandi
- Lísbet Harðardóttir, málari, Ísafirði
- Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson, lögfræðingur, frá Blönduósi
Já en hvar býr Gylfi? Það er gefið upp að Lee Ann býr á Blönduósi og Lísbet er á Ísafirði. En hvar búa Gylfi, Dagbjartur og Sturla? Og hvers vegna er ekki upplýst hvaðan allir frambjóðendur eru ættaðir þegar menn eru byrjaðir á þeirri skemmtilegu nýbreytni á annað borð?
Það verður spennandi að sjá hvernig listi flokksins í norðausturkjördæmi verður kynntur þar sem sagt er að Benedikt Jóhannesson verði í efsta sæti. Þar koma ýmsar leiðir til greina til að gera sig til fyrir kjósandann:
Benedikt Jóhannesson, stærðfræðingur, hafði steik frá Fjallalambi um síðustu helgi.
Benedikt Jóhannesson, ritstjóri, var í bústað í Kjarnaskógi um árið.
Benedikt Jóhannesson, útgefandi, steig eitt sinn á land úr Norrænu í kjördæminu.
En hér er veðjað á þessa niðurstöðu:
Benedikt Jóhannesson, talsmaður Já-Icesave og formaður Evrópusinna, Reykjavík, frá Reykjavík, til Brussel.