Litlir þingflokkar eru dýrir og eiga bágt með að sinna þingstörfunum

Eftir því sem þinginu er sundrað í fleiri þingflokka minnkar geta hvers og eins til að ná utan um þingstörfin.

Hverjum nýjum þingflokki fylgir tugmilljóna kostnaður vegna álags á laun þingflokksformanns og formanns, aðstoðarmanns formanns, sértaks þingflokksherbergis, framkvæmdastjóra þingflokks, skrifstofuaðstöðu og annars óhjákvæmilegs utanumhalds.

Því fleiri flokkar því meiri kostnaður fyrir skattgreiðendur.

En gott og vel þetta kann að þykja sjálfsagður kostnaður við lýðræðislega niðurstöðu kosninga.

En þá kemur að sjálfum þingstörfunum. Samkvæmt könnunum stefnir til að mynda í að þrír litlir ESB-flokkar – Samfylking, Viðreisn og Björt framtíð – skríði yfir 5% þröskuldinn og fái 3 til 5 þingsæti hver. Þessir flokkar munu ekki með góðu móti geta mannað 8 fastanefndir þingsins eða fjölmargar aðrar nefndir þingsins.

Það þýðir að þessir litlu þingflokkar verða utangátta í mörgum mikilvægum málum sem til umfjöllunar eru í nefndum þingsins. Þegar mál koma til umræðu í litlu þingflokkunum hefur enginn sett sig inn í málið og enginn hefur forsendur til að kynna það fyrir samflokksmönnum sínum.

Ef einhver efast um að þetta eigi við rök að styðjast getur sá hinn sami skoðað atkvæðagreiðslurnar sem þrír þingmenn Pírata hafa tekið þátt í undanfarin ár um óteljandi mikilvæg mál. Í hverju máli á fætur öðru hafa þeir borið fyrir sig fáfræði og þekkingarskort og setið hjá við atkvæðagreiðslu. Í óteljandi stórum málum hafa þeir afsakað afstöðuleysi sitt með því að þeir hafi ekki tök á að sækja fundi í fastanefndum sem hafa lagafrumvörpin til umfjöllunar. Í nefndunum er farið yfir frumvörpin og umsagnir og nefndirnar fá til sín umsagnaraðila og aðra sérfræðinga.

Niðurstöður skoðanakannana undanfarið benda til að allt að átta flokkar geti náð kjöri. Það mun ekki aðeins hafa aukinn kostnað í för með sér heldur er líklegt að sjálf þingstörfin gjaldi fyrir.