Mánudagur 3. september 2001

246. tbl. 5. árg.

Þessa eftirsóttu vöru má hvorki auglýsa né selja utan ÁTVR
Þessa eftirsóttu vöru má hvorki auglýsa né selja utan ÁTVR

Í Bandaríkjunum berst frjálshyggjuflokkurinn nú fyrir því að þingmenn samþykki lagafrumvarp um lækkun skatta á bjór. Skattalækkunin hljóðar upp á sem svarar til þriggja til fimm króna á hvern bjór og virðist stuðningur við hana vera allnokkur í þinginu, en 177 fulltrúadeildarþingmenn hafa þegar lýst yfir stuðningi við frumvarpið. Hér á landi fer ekki mikið fyrir skattalækkun á bjór eða annað áfengi þó enn ríkari ástæða sé til lækkunar hér en í Bandaríkjunum. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins eru skattar á bjór 67% af smásöluverði og álagning Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins 13% til viðbótar. Innkaupsverðið er því aðeins 20% af því verði sem neytendur greiða. Ef litið er á aðra vinsæla vöru, vodka, þá er innkaupsverðið aðeins 13% en afganginn fer til ríkisins, sem er að vanda haldið óslökkvandi þorsta.

En burt séð frá því hversu hátt hlutfall af verði áfengis fer til ríkisins hlýtur sú stund að fara að renna upp að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hætti starfsemi og áfengi verði líkt og aðrar vörur selt í verslunum einkaaðila. Sá maður er varla til í dag sem ver núverandi fyrirkomulag í áfengissölumálum og að því hlýtur það að fara að gerast að menn taki á sig rögg og knýi fram breytingar. Breytingar í frjálsræðisátt í sölu á áfengi hefðu vafalaust jákvæð áhrif á neyslu Íslendinga á áfengi, svo ekki sé talað um hversu óeðlilegt það er að ríkið taki sér einkaleyfi á sölu á neysluvöru. Hvernig getur nokkrum manni dottið í hug að slíkt fyrirkomulag sé eðlilegt eða réttmætt? Hringir ekki viðvörunarbjöllum við það eitt að sjá nafn einokunarverslunarinnar: Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins !

Röksemd þeirra sem vilja Ísland inn í Evrópusambandið eru helst þau að þannig geti landið haft áhrif á þær reglur sem þar eru settar. Þetta er nú svona mátulega trúverðugt, meðal annars vegna þess að lítil lönd hafa lítið að segja – og örlítil lönd hafa örlítið að segja – í þessu stóra ríkjasambandi. Þar að auki er hætt við að áhrif hinna stærri ríkja muni fara vaxandi á kostnað hinna smærri. Annað sem haldið er fram er að ríkin sem sæki um geti samið um sérþarfir sínar við inngöngu. Þeir eru jafnvel til sem hafa haldið því fram að Ísland gæti samið sig frá sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og fengi að halda yfirráðum yfir auðlindinni. Gengi slíkra lögskýringa hefur hríðfallið að undanförnu, og fáum dettur víst í hug að hægt sé að halda slíku fram með rökum í dag.

Svo geta Íslendingar lært af reynslu annarra ef þeir treysta ekki eigin könnunum á líkindum þess að hægt væri að hafa veruleg áhrif á reglur Evrópusambandsins við inngöngu. Vaclav Klaus, fyrrverandi forsætisráðherra Tékklands, hefur nýlega líkt inngöngu í Evrópusambandið við inngöngu í lokaðan tennisklúbb. Menn hafi ekki áhrif á reglur klúbbsins við inngöngu í hann. Og Klaus gengur meira að segja svo langt að segja að hagsmunir þeirra ríkja sem þegar séu í sambandinu fari ekki saman við hagsmuni hinna sem utan standa. Með öðrum orðum fari viðræður um inngöngu algerlega fram á forsendum Evrópusambandsins og hagsmunir þess fari ekki saman við hagsmuni þeirra sem séu að sækjast eftir inngöngu.