Það vantar ekki, þeir eru stjórnlyndir vinstri mennirnir. Sennilega vilja þeir í raun stjórna öllu lífi samborgara sinna, þó þeir gangist nú sjaldnast við slíkum kenndum. Að minnsta kosti eru þeir óþreytandi í tilraunum sínum til þess að skipta sér af lífi annarra. Þeir vilja að ríkið – sem þeir helst vilja að sé í sínum höndum – ráðstafi sem mestu af eigum borgaranna og setji þeim sem skýrust fyrirmæli um það, hvað þeir mega en ekki síður hvað þeir mega ekki gera. Þeir vilja nota opinbert vald til að hygla eigin smekk umfram smekk annarra borgara. Þeir vilja að með opinberu valdi sé haldið úti útvarpi og sjónvarpi sem sendi út það sem „þarf“ að senda út. Þeir vilja stöðugt öflugri opinberar menningarstofnanir sem setji á svið, spili og gefi út þá list sem „þarf“ að vera í boði. Og með sama hætti beita þeir sér, eins og þeir þora hverju sinni, gegn hinu gagnstæða.
Þeir voru hatrammir gegn frjálsu útvarpi og frjálsu sjónvarpi, þó þeir vilji ekki að um það sé talað og reyni að gera alla hlægilega sem það gera. Þeir eru mjög tortryggnir gagnvart öllu því sem venjulegt fólk gerir í menningarmálum og tala – í samblandi af fyrirlitningu og hræðslu – um „markaðsleikhús“ sem þeir óttast réttilega að reyni að setja á svið verk fyrir venjulegt fólk en ekki hinn dæmigerða yfirlætislega vinstri mann. Flestir þeirra líta í raun niður á hversdagslega dægrastyttingu venjulegs fólks og vildu sennilega leggja oftar til atlögu við hana en þeir þó gera. Væntanlega er það hræðslan við kjósendur og óttinn við að allir átti sig á því hve þeir líta niður á hinn almenna mann sem veldur því að þeir láta sér oft nægja að fussa og sveia yfir „dægurmenningunni“ milli þess sem þeir tala hátíðlega um eigin áhugamál.
En sumt þora þeir alveg til við. Stundum telja þeir að nægilega fáir muni taka til varna og þá stendur ekki á ofsanum í vinstri mönnum. Dæmi um það eru erótískir skemmtistaðir sem settir hafa verið upp víða á landinu við mikinn fögnuð marga landsmanna, en við mikla hneykslun og ofsa annarra. Vinstri menn eru óðir út af þessu og reyna, þar sem þeir geta, að beita opinberu valdi til að útrýma þessum skemmtistöðum. Þannig hyggjast þeir nú nota tök sín á skipulagsnefnd Reykjavíkurborgar til þess að setja sérstaka klausu inn í aðalskipulag höfuðborgarinnar, þess efnis að rekstur erótískra skemmtistaða sé beinlínis bannaður í Reykjavík.
Þetta er stórvarasöm hugmynd – hvort sem menn eru áhugamenn um erótískar skemmtanir eða ekki. Þarna hyggjast yfirvöld taka eina löglega atvinnugrein og beinlínis banna hana í allri höfuðborginni. Jafnvel þótt menn samþykki að sveitarstjórnir megi leggja meginlínur í skipulagi sínu, þá er hér eitthvað allt annað á ferðinni. Hér er einfaldlega verið að vega að atvinnufrelsi og athafnafrelsi borgaranna undir yfirskini „skipulags“. Og ef Reykjavíkurborg helst þetta uppi, hvað getur þá ekki komið næst? Sumir vilja banna rokktónlist, mætti ekki í „aðalskipulagi“ ákveða að rokktónleikar væru bannaðar í allri höfuðborginni? Hvað með ýmsar áhættusamar íþróttagreinar, margir eru á móti þeim, og svo mætti lengi telja.
Sumir eru mjög á móti erótísku skemmtistöðunum og hafa fyllsta rétt til þess að stíga aldrei þangað fæti sínum. Einhverjir slíkra manna kunna að fagna þessum ógeðfelldu hugmyndum Reykjavíkurborgar. En ef menn hugsa sinn gang, og ímynda sér að þessari ofsafengnu herferð væri beint að einhverri annarri löglegri starfsemi, þá hljóta þeir að sjá hversu fráleitt það er að nota aðalskipulag höfuðborgarinnar til þess að ná höggi á tiltekna atvinnugrein. Eða hvað segðu menn ef í aðalskipulagi yrði allt í einu kveðið á um að ekki mætti reka skóbúðir eða regnhlífasölur í Reykjavík?