Á forsíðu Morgunblaðsins í gær var frétt um að í virðulegu leikhúsi í Alþýðulýðveldinu Kína væri leikurum og listunnendum ekki lengur vært fyrir farsímahringingum og símtölum fjölda leikhúsgesta. Þar líkt og hér eru farsímaeigendur greinilega útbreiddur hópur, en símagleðin virðist þó enn meiri þar en hér. Ekki einu sinni virðulegar leiksýningar fá símaeigendur til að slökkva á símum sínum, en hér er ástandið þó enn þannig að menn geta jafnvel farið í óvirðuleg kvikmyndahús án þess að þurfa að hlusta á löng símtöl samborgara sinna.
Menn gætu ætlað að munurinn á kínverskum siðum og íslenskum að þessu leyti stafaði aðallega af því að fólkið sé svo ólíkt. Sinn er siður í landi hverju, segja menn oft þegar útskýra þarf ólíka hegðun fólks sem er sitt hvoru megin landamæra tveggja ríkja. En í fréttinni er vitnað í Ying, yfirmann tæknideildar leikhússins, og þar kemur fram skýringin á þessum ósið kínversku símaeigendanna. Honum veldur ekki að Kínverjar séu síður prúðir og háttvísir en Íslendingar, heldur skýrir Ying þetta með því að kínversku áhorfendurnir hafi oft fengið aðgöngumiðann án þess að hafa greitt fyrir hann sjálfir. Þeir eru því ekki á sýningunni vegna leiklistaráhuga.
Þetta er vissulega óvænt og athyglisverð afleiðing af því þegar fólk þarf ekki að greiða sjálft fyrir þá þjónustu sem það notar. Þeir Kínverjar, sem greiða sjálfir fyrir leikhúsmiða sína, láta sér ekki koma til hugar að eyðileggja leiksýninguna fyrir sjálfum sér (og þar með öðrum) með því að hanga í símanum. Hinir, sem ekkert greiða, láta sér fátt um finnast þó leiksýning, sem þeir höfðu hvort eð er engan áhuga á, fari fyrir ofan garð og neðan hjá þeim og öðrum.
Oft hefur verið bent á afleiðingar „ókeypis“ gæða og eru símhringingar í kínverskum leikhúsum aðeins eitt birtingarform þeirra. Annað dæmi um afleiðingu þess að menn fái eitthvað án þess að greiða fyrir það má sjá í skólum hér á landi, sér í lagi á efri stigum skólakerfisins. Nemendur í framhaldsskóla og háskóla sem ekki þurfa að greiða fyrir menntun sína bera álíka mikla virðingu fyrir náminu og kínverskir gjafamiðaþegar bera fyrir kínverskum leiksýningum. Kennarar jafnt sem nemendur þekkja vel hvaða áhrif áhugaleysi nemenda hefur á kennsluna. Áhugalaus nemandi truflar aðra og fær sjálfur lítið sem ekkert út úr skólagöngunni, nema ef til vill merkingarlítinn stimpil í lokin. Ef nemendur greiddu sjálfir fyrir nám sitt í stað þess að þiggja það endurgjaldslaust frá skattgreiðendum, mundu þeir tæplega hætta á að slá slöku við. Og jafnvel þó einhverjum væri sama þó hann sóaði fjármunum með þeim hætti, er ólíklegt að hann fengi aðra nemendur með sér í slugsið. Aðrir nemendur hefðu engan áhuga á að láta ólátabelg trufla kennslu sem þeir greiddu fyrir sjálfir.
Nemendur mundu heldur ekki sætta sig við lélega og illa undirbúna kennara – og þeir mundu alls ekki sætta sig við kennara í verkfalli. Ef skólar væri reknir líkt og fyrirtæki, en væru ekki ríkisstofnanir, eru líkur á löngu verkfalli litlar. Það er engin tilviljun að nú er kennt í Verzlunarskólanum, sem ekki er í eigu ríkisins, á sama tíma og verkfall er í framhaldsskólum ríkisins.