Mánudagur 11. september 2000

255. tbl. 4. árg.

Á laugardaginn sagði Vefþjóðviljinn frá nýjustu æsikenningunum úr smiðju hins stórmerka þungavigtarmanns, Alfreðs Þorsteinssonar. Þá hafði Alfreð ausið úr skálum reiði sinnar og sakað óvini sína, sjálfstæðismenn, um allskyns fólskuverk. Við það tækifæri gat Vefþjóðviljinn þess, að lengi hefði hatur Alfreðs á þeim flokki þótt svo ákaft að líklega gæti Alfreð Þorsteinsson fengið vinnu á ritstjórn Dags hvenær sem hann lysti.

Vefþjóðviljinn hafði varla sleppt orðinu þegar helgarblað Dags kom út og þar var á forsíðu litmynd af hinum stórmerka þungavigtarmanni, Alfreð Þorsteinssyni. Nú var til umræðu sú kenning Alfreðs að hinir illu sjálfstæðismenn nýttu ráðherravöld sín til að lemja á R-listanum í borgarstjórn. „Þeir hafa hvað eftir annað verið að þvælast fyrir og koma höggi á okkur“ sagði Alfreð og þóttist grátt leikinn. Nefndi hann sérstaklega úrskurð Björns Bjarnasonar um kæru Landssímans yfir vinnubrögðum Alfreðs og borgaryfirvalda varðandi samskipti borgarinnar og fyrirtækisins Línu punkts nets.

Þó Alferð nefni það nú ekki þá má rifja upp að í úrskurði sínum hafnaði Björn þeirri kröfu Landssímans að samningur borgarinnar og Línu punkts nets yrði ógiltur. Erfitt er því að segja að Björn hafi sett Alfreð og félögum hans stólinn fyrir dyrnar í þessu máli. Hins vegar er það rétt að á valdatíma Alfreðs og R-listans hefur það gerst að ráðherra hafi úrskurðað ákvarðanir þeirra ólöglegar. Það hefur nánar tiltekið gerst tvívegis á þessu kjörtímabili. Í annað skiptið vildi R-listinn að 13. maður listans tæki sæti í borgarstjórn á undan 9. manni listans og í hitt skiptið vildi R-listinn að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir stjórnaði sjálf fundum borgarráðs án þess að eiga þar sæti. Ráðherra úrskurðaði í bæði skiptin að þetta stæðist ekki lög. Og þetta eru einu dæmin sem Vefþjóðviljinn man um að ráðherrar hafi beitt valdi sínu til að úrskurða gegn Alfreð Þorsteinssyni og öðrum R-listamönnum.

Og hver er nú hinn illi sjálfstæðisráðherra sem þarna beitti valdi sínu til að koma höggi á R-listann? Jú, best að draga kónann fram í dagsljósið. Úrskurðina kvað upp settur félagsmálaráðherra, hann heitir Halldór Ásgrímsson og er formaður Framsóknarflokksins.