Fimmtudagur 24. ágúst 2000

237. tbl. 4. árg.

Á þessum síðum hefur oft verið hvatt til þess að kurteisissamskiptum við glæpastjórnina á meginlandi Kína sé haldið í lágmarki en menn horfi þess í stað í auknum mæli til lýðræðislega kjörinnar stjórnar Kínverja í Taívan. Það var til að mynda ánægjulegt að tekið var vel á móti varaforseta Taívan og enn ánægjulegra að sjá kínverska embættisþursa móðgast af því tilefni. Nú er hins vegar að vænta heimsóknar Lis Pengs sem er forseti svonefnds þings á meginlandinu. Li þessi fyrirskipaði blóðbaðið á Torgi hins himneska friðar í júní 1989 en þá var hann forsætisráðherra.

Það er raunar rannsóknarefni hvernig samskiptum íslenska ríkisins og sveitarstjórna við Kína er háttað. Það berast æði oft af því fréttir að stjórnmálamenn séu staddir í Kína í boði glæpaflokksins sem þar fer með völd. Starfsemi kínverska sendiráðsins væri einnig verðugt rannsóknarefni en þar á bæ hefur oft verið mikið fjölmenni. Á heimasíðu Heimdallar frelsi.is hefur verið sett upp síða með skilaboðum sem senda má til íslenskra stjórnvalda þar sem heimsókn Pengs er mótmælt.

„Undanskot leigutekna að aukast“ var stríðsfyrirsögn fréttar á forsíðu í Degi-Tímanum í gær. Í fréttinni kom fram að framtaldar húsaleigutekjur einstaklinga lækkuðu um 18% á milli ára. Í fréttinni kemur einnig fram að 10% færri einstaklingar töldu fram leigutekjur en árið á undan. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja að útleiga á íbúðarhúsnæði hefur um árabil verið einn lakasti ávöxtunarkosturinn. Því er ekki að undra þótt menn losi sig við húsnæði sem þeir hafa leigt út nú þegar eftirspurn eftir íbúðum til kaups er loks fyrir hendi og verð hefur hækkað eftir margra ára lægð. Í Degi-Tímanum er því hins vegar slegið sem föstu að leigusalar hafi lagst í skattsvik.