Miðvikudagur 16. febrúar 2000

47. tbl. 4. árg.

Veðurhugtökin andvari, stinningsgola, hvassviðri, fárviðri og fjölmörg önnur munu væntanlega bráðlega heyrast og sjást á ný í fjölmiðlum landsins. Ástæðan er sú að fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga um að umhverfisráðherra feli Veðurstofu Íslands að nota þessi hugtök við lýsingar á veðurhæð í stað þess að nota aðeins metra á sekúndu. Þetta er aðeins eitt fjölmargra mikilvægra mála sem liggja fyrir Alþingi.
Vef-Þjóðviljinn fagnar því að þingmenn haldi sér uppteknum við umræður um veðurhæð, það er með því allra ódýrasta sem þeir gera.

Þó eru einstaka mál sem liggja fyrir Alþingi þess eðlis að heppilegra er að þau en veðurhæðin fáist rædd. Eitt er frumvarp til laga um að lögleiða ólympíska hnefaleika, en flutningsmenn þess koma úr öllum þingflokkum nema þingflokki vinstri grænna. Þingmenn þess flokks bregðast ekki röngum málstað frekar en fyrri daginn.

Einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins ákvað að bregðast ekki heldur röngum málstað og talaði gegn frumvarpinu. Þetta var Katrín Fjeldsted en hún sá meðal annars þann ókost við þetta frumvarp að með rökunum sem því fylgdu mætti lögleiða nánast hvað sem er. Já, væri það ekki skelfileg tilhugsun ef nánast hvað sem er væri lögleitt? Með öðrum orðum ef nánast ekkert væri bannað? Þá væri sem sagt aðeins það helsta bannað, ef til vill aðeins það sem sérstök ástæða er til að banna. Nei, það gengur auðvitað ekki. Bannið verður víst að vera aðalreglan og svo er fólki leyft það sem hægt er að færa sérstaklega mikilvæg rök fyrir að verði að leyfa.