Helgarsprokið 6. júní 1999

157. tbl. 3. árg.

Starfsleyfi þykja einhverra hluta vegna sjálfsagt fyrirbæri og fáum virðist detta í hug að eitthvað geti verið athugavert við að fólk þurfi að sækja um leyfi til hins opinbera til að reka ákveðna starfsemi. Hér á landi þarf t.d. opinbert leyfi ætli menn að framleiða matvæli. Það þarf  opinbert leyfi vilji menn selja öðrum mat og drykk með því að reka veitingastað. Og það þarf opinbert leyfi til að aðstoða fólk við að leita réttar síns fyrir dómstólum. Dæmin eru endalaus, en það sem nú síðast hefur vakið athygli er að starfsleyfi frá hinu opinbera þarf til að fá að stinga prjónum í fólk.

Maður sem menntaður er í því sem kallað er austrænar lækningar hefur ekki fengið leyfi hins opinbera til að starfa hér á landi við þessa grein sína. Hið opinbera virðist halda að málið snúist um það hvort austrænar eða vestrænar lækningaraðferðir eru góðar eða slæmar eða um það hvort tiltekinn einstaklingur er fær á sínu sviði eða fúskari. Svo er hins vegar alls ekki. Málið snýst um að hið opinbera á ekki að taka sér það vald að meina fólki að leita sér þeirra lækninga sem það kýs á eigin kostnað. Vilji Jón leita lækninga hjá Gunnu með því að láta hana stinga í sig austrænum prjónum er það alfarið mál þeirra tveggja. Og kjósi Jón frekar að fá vestrænar pillur hjá Siggu hlýtur það líka að eiga að vera einkamál þeirra tveggja og utan valdsviðs hins opinbera.

Því er sjálfsagt haldið fram að starfsleyfi og önnur lögverndun starfsréttinda sé neytandanum í hag. Með því að hið opinbera veiti framleiðendum og þjónustufyrirtækjum ákveðinn stimpil séu neytendur verndaðir fyrir fúskurum. Þetta eru í raun svipuð rök og eru oft færð fyrir því að banna innflutning landbúnaðarafurða. Með því sé verið að vernda heilsu íslenskra neytenda. Flestum er þó ljóst að með þessum takmörkunum, bæði lögverndun starfsréttinda og innflutningshöftum, er hið opinbera fyrst og fremst að vernda ákveðna framleiðendur fyrir samkeppni og takmarka þar með valfrelsi neytenda. Það dregur ekki aðeins úr verðsamkeppni með þessum hömlum heldur hlýtur að draga úr frumkvæði og sköpunargleði á markaði sem er útilokaður frá samkeppni með þessum hætti. Nýjungar eru stór þáttur í samkeppni á frjálsum mörkuðum.

Það má líka tryggja hagsmuni neytenda með öðrum hætti en boðum og bönnum hins opinbera. Fagfélög framleiðenda geta ábyrgst félagsmenn sína. Vottunarfyrirtæki eru vel þekkt fyrirbæri. Neytendasamtök fylgjast með framleiðendum og gefa út viðvaranir ef um óvandaða framleiðslu eða þjónust er að ræða. Fjölmiðlar bera saman verð og þjónustu fyrirtækja og flytja fréttir af ánægju og óánægju neytenda með tiltekna þjónustu. Allt telst þetta til neytendaverndar. Það gæti nefnilega líka verið samkeppni í neytendavernd ef að ríkið hætti að skipta sér af henni. Ríkiseinokun á neytendaverndinni sjálfri er ekki betri en önnur einokun hins opinbera. Hafa neytendur einhvern tímann tapað á því þegar samkeppni og frjálsum markaði leysir ríkiseinokun af hólmi? Nei. Af hverju skyldi það þá gerast ef samkeppni tekur við af ríkiseinokun á neytendavernd? Það er neytendum í hag að afnema þá ríkiseinokun sem felst í opinberum starfsleyfum og lögverndun starfsheita og starfsréttinda.