Þriðjudagur 11. ágúst 1998

223. tbl. 2. árg.

Í seinni fréttum sjónvarps í gær var rætt við Bryndísi Hlöðversdóttur þingmann Alþýðubandalags um hið svonefnda frumvarp um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Þar benti Bryndís réttilega á að umræðan um frumvarpið snerist því miður alltof mikið um fyrirtækið Íslenska erfðagreiningu. Aðalatriðið væri hins vegar að þær upplýsingar sem setja ætti í gagnagrunninn væru komnar frá einstaklingum sem farið hefðu með persónuleg mál sín til lækna og annarra starfsmanna heilbrigðiskerfisins og gert ráð fyrir að þau færu ekki lengra. Þetta viðtal lofaði semsé góðu. Bryndís var greinilega með áhyggjur af því að vilji einstaklingsins yrði fyrir borð borinn. En til að tryggja hagsmuni einstaklingsins stakk Bryndís upp á að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið! Þarf einstaklingurinn óvini þegar hann á svona vini?

Í fréttum Stöðvar 2 á sunnudaginn komu tvær fréttir mörgum mjög sérkennilega fyrir sjónir. Báðar voru þær fluttar af fréttamanninum Róberti Marshall sem er fyrrverandi formaður samtaka ungra alþýðubandalagsmanna, Verðandi. Sú fyrri fjallaði um „sérkennilegar“ atvinnuauglýsingar í Morgunblaðinu þar sem auglýst var eftir dagmæðrum. Hefur Morgunblaðið verið fullt af atvinnuauglýsingum um nokkurt skeið og því vakti það furðu að þessi stétt skyldi tekin út. T.d. hefur vantað tölvumenntað fólk til starfa hér og þar í langan tíma. En það sem vafðist ekki fyrir Róberti var að taka viðtal við Kristínu Blöndal, stjórnarformann Dagvistar barna og varaborgarfulltrúa R-listans, út af nokkrum auglýsingum.

Síðari fréttin var svo enn sérkennilegri. Þar var vitnað í slúðurdálk í Degi (Róbert er fyrrverandi blaðamaður þar) sem heitir Heiti potturinn. Þar var gefið til kynna að ástæða einkavæðingar Landsbankans væri sú að menn vildu ekki að „hinn ógurlegi kolkrabbi“ keypti bankann. Fréttahaukurinn var ekki lengi til og tók viðtal við Svavar Gestsson um málið. Svavar fékk svo tækifæri til að útata stjórnarflokkana og sakaði þá um yfirlögð ráð við að skipta bankanum til helminga milli „traustustu stuðningsfyrirtækja“.
Er gott að vita til þess að vinstri menn fá Marshall aðstoð frá Stöð 2 þegar þeir þurfa að koma slúðri sínu á framfæri..