Ríkisstjórnin samþykkti í gær tillögu Finns Ingólfssonar iðnaðar- og viðskiptaráðherra um að hergagnaframleiðsla á Íslandi verði efld með því að endurgreiða hergagnaframleiðendum kostnað við hergagnaframleiðslu. Nei, þetta er nú víst ekki alveg rétt, það var víst kvikmyndagerð sem varð fyrir valinu að þessu sinni, en rökin fyrir tillögunni hefðu samt verið hin sömu. Finnur vill láta ríkið niðurgreiða kvikmyndagerð til að fjölga þeim kvikmyndum sem hér eru framleiddar, en vitaskuld hefði verið hægt að velja ýmislegt annað út úr til að niðurgreiða og auka þar með framleiðslu þess.
Nú skal því ekki mótmælt að skattar á atvinnulíf séu lækkaðir enda full ástæða til eins og margsinnis hefur verið bent á hér á þessum síðum. Séu skattar lækkaðir eykst framleiðslan og velmegun landsmanna að sama skapi. Skatta á hins vegar ekki að lækka með því að stjórnlyndir stjórnmálamenn velji vinsæla atvinnugrein rétt fyrir kosningar og lækki skatta á hana eina. Atvinnuvegir ættu allir að sitja við sama borð og greiða jafn lága skatta. Með því að lækka skatta á eina atvinnugrein mun framleiðsla í þeirri grein vafalítið aukast, en hagkvæmnin í atvinnulífinu verður minni en þegar allir búa við sömu hagstæðu skilyrðin. Þetta á ævinlega við þegar ríkið grípur með handafli inn í atvinnulífið eins og menn ættu að vera löngu búnir að læra. Reyndar ætti að vera óþarfi að minna á þessi augljósu sannindi eftir allar hinar misheppnuðu sértæku aðgerðir margra ríkisstjórna í atvinnumálum.
Lýðskrum af ýmsu tagi færist alla jafna í vöxt fyrir kosningar. Ekki er útlit fyrir að breyting verði þar á að þessu sinni. Að minnsta kosti ef marka má frumvarp Ágústs Einarssonar og Gísla Einarssonar um harðari refsingar við fíkniefnabrotum. Í DV í gær er Helgi Gunnlaugsson dósent í félagsfræði við HÍ inntur álits á þessari hugmynd og um hana segir hann: Reynslan hefur sýnt að hörð refsipólítík gegn fíkniefnavandanum hefur ekki skilað tilætluðum árangri. Óvíða á Vesturlöndum er meiri útbreiðsla ólöglegra fíkniefna en í Bandaríkjunum og hvergi er beitt eins hörðum viðurlögum og þar. Upp úr miðjum níunda áratungum var stærsta skrefið í þyngingu dóma tekið þar með tilkomu hárra lágmarksrefsinga og líftíðardóma fyrir alvarleg fíkniefnabrot. Síðan hefur fangafjöldi meira en tvöfaldast og nú er hlutfall fíknifanga komið yfir 60% allra fanga. Á sama tíma hefur vandi vegna fíkniefna ekki minnkað heldur þvert á móti vaxið, ekki síst meðal minnihlutahópa sem í ofanálag sjá á eftir æ fleiri í fangelsi á meðan svokallaðir fíkniefnabarónar hafa að mestu sloppið.
Og Helgi bætir svo við: Norðmenn hafa sömuleiðis fylgt harðri refsistefnu og uppskeran birtist í einna hæstri tíðni dauðsfalla vegna heróíns í Evrópu. Hollendingar hafa fylgt annarri stefnu og samkvæmt nýjustu mælingum er útbreiðsla kannabisefna, sem margir telja vísustu leiðina í þyngri efnin, þó umtalsvert minni en í Bandaríkjunum. Vandinn vegna fíkniefna, sem er fyrst og fremst félags- og heilbrigðisvandi, verður því ekki leystu rmeð þyngri dómum heldur væri skynsamlegra að verja fjármunum skattborgaranna með öðrum hætti.