Miðvikudagur 6. maí 1998

126. tbl. 2. árg.

Jónas Bjarnason efnaverkfræðingur gerir í DV í gær aðra tilraun til að tappa örlitlu vetni af Hjálmari Árnasyni og koma honum niður á jörðina en Hjálmar hefur verið að belgja sig út í fjölmiðlum sem talsmaður vetnisnotkunar að undanförnu. Jónas bendir á að enn sé vetnisnotkun á farartæki lítt fýsilegur kostur. Bæði séu tæknilegir hnökrar enn til staðar og vetnið sé mun dýrara en þeir kostir sem við nýtum í dag. Þá bendir Jónas á að þótt vetnisnotkun væri hagstæður kostur fyrir okkur Íslendinga vegna orku fallvatnanna þá myndi það litlu breyta fyrir aðrar þjóðir sem þyrftu að framleiða vetnið með bruna jarðefnaeldsneytis.

Stefán Jón Hafstein er ritstjóri Dags. Í ritstjórnargrein í Degi í gær sagði: „Það hefur ekki verið eins gaman að hlusta á Þjóðarsálina síðan Stefán Jón Hafstein var og hét.“ Á dögunum ritaði Sverrir Hermannsson grein þar sem hann vék orðum að „rígmontnu rembumenni“.

Eins og menn muna hikaði Ólafur Ragnar Grímsson ekki við að nota veikindi móður sinnar sér til framdráttar í baráttunni um forsetaembættið fyrir tæpum tveimur árum. Þótti þetta allnýstárleg baráttuaðferð. Í Morgunblaðinu í gær grípa tveir Daglaunamenn, þeir Birgir Guðmundsson og Stefán Jón Hafstein, til þess óyndisúrræðis í skylmingum sínum við Sverri Hermannsson að skýla sér á bak við mæður sínar. Hver segir svo að forsetinn hafi ekki áhrif út í þjóðlífið?