Í fréttaskýringaþætti í ríkisútvarpinu í gær ræddi fréttaritari ríkisútvarpsins í Þýskalandi við Gerhard Schröder, frambjóðanda jafnaðarmanna til kanslaraembættisins, eins valdamesta embættis í Evrópu. Viðtalið var frekar stutt en nærri má geta að ekki sé hlaupið að því að fá viðtal við Schröder þessa dagana. Svör Schröders við spurningum fréttaritara voru í samræmi við það sem búast má við af forystumanni jafnaðarmanna í hvaða Vestur-Evróplandi sem er og spurningar fréttaritara voru í samræmi við það sem við má búast af starfsmanni ríkisútvarpsins og engum öðrum nema ef vera skyldi blaðamönnum Prövdu hinnar sálugu. Ein spurning snerist um þá skoðun Kohls núverandi kanslara að nauðsynlegt sé að minnka greiðslubyrði Þýskalands í Evrópusamstarfi með því að lækka framlag Þýskalands til Evrópusambandsins. Schröder kvaðst ekki mundu minnka framlögin kæmist hann til valda (og varla er það frétt!).
Önnur spurning snerist um hvort Schröder hefði ekki áhyggjur af uppgangi þjóðernissinna í þýskum stjórnmálum. Schröder kvaðst hafa mátulegar áhyggjur af honum sérstaklega þar sem uppgangurinn væri minni en umræðan gæfi til kynna. Athygli vakti þó að fréttaritarinn kallaði þessa þjóðernissinna öfga-hægrimenn við þýðingu viðtalsins en notaði ekki það orðalag við Schröder sjálfan (enda líklega engir nema innvígðir sem skilja hugtakanotkun starfsmanna ríkisútvarpsins).
Þriðja spurningin sem hér verður gerð að umræðuefni snerist svo auðvitað um … þið vitið hvað! Ef lesendur hafa ekki getið upp á efni hennar þá er þörf á stuttum formála. Höfum fyrst og fremst í huga að ekki er auðvelt að fá viðtal við Schröder og allra síst þessa dagana fyrir fréttaritara ríkisútvarpsins á Íslandi. Í öðru lagi, ef svo vel vill til að Schröder kemur viðtali við fréttaritara ríkisútvarpsins á Íslandi inn í þéttskipaðan vinnudag sinn þá má ætla að viðkomandi fréttaritari noti tímann vel og spyrji um þau málefni sem áleitnust eru þá stundina. Spyrji um það sem mestu skiptir í ljósi þess að ekki er ólíklegt að Schröder verði innan skamms einn valdamesti maður Evrópu. Og hvað er þá brýnast að spyrja um? Jú, Munt þú halda Goethe stofnuninni í Reykjavík opinni á kanslaratíð þinni?!!! Lesendum til fróðleiks skal það upplýst að Schröder sagði já. Ekki þarf að taka það fram að Vef-Þjóðviljinn hefur þegar tryggt sér viðtal við Bill Clinton og Al Gore þar sem þeir verða krafðir svara um framtíð Sölu varnarliðseigna.