Það var viðtal við kaupmennina…
og feðgana, Jóhannes og Jón Ásgeir í versluninni Bónus, í DV um helgina. Eins og menn þekkja er það keppikefli Bónuss að bjóða lægsta verðið. Blaðamaður spyr þá hins vegar hvers vegna þeir hafi verðmuninn á sér og næstu verslunum fyrir ofan ekki örlítið minni og nái þar með auknum hagnaði. Þessu svarar Jón Ásgeir þannig: Málið er bara að við ætlum ekki að búa til holu fyrir einhverja aðra. Við höfum styrkt okkur í sessi á markaðnum með því að bjóða þetta lágt verð og munum ekki láta skammtíma gróðasjónarmið eyðileggja það fyrir okkur. Það er kannski ekkert sérstaklega aðlaðandi að stofna fyrirtæki sem leggur upp úr því sama og við og kannski ólíklegt að það verði gert. Við ætlum a.m.k. ekki að gera mönnum það auðvelt með því að hækka verðið hjá okkur.
Þarna bendir Jón Ásgeir réttilega á hve mikilvægt er…
að markaðurinn sé opinn fyrir nýjum fyrirtækjum. Það er einmitt aðall matvörumarkaðarins. Það er auðvelt fyrir nýja aðila að hella sér í slaginn. Þetta má nefna aðhald frá yfirvofandi samkeppni. Þetta aðhald getur skipt sköpum fyrir neytendur. Þess vegna er mikilvægt að fleiri svið verði opnuð á sama hátt og smásöluverslun með mat. Lækkun skatta og fækkun reglugerða er vísasta leiðin til þess.