Vefþjóðviljinn 101. tbl. 20. árg.
Í nýlegri grein á vef sínum segir Sigríður Á. Andersen frá frumvarpi sem hún hefur lagt fram í félagi við sjö aðra þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem myndi afnema þá skyldu af borgarstjórn Reykjavíkur að fjölga borgarfulltrúum um að minnsta kosti helming við næstu sveitarstjórnarkosningar.
Ég mælti í dag fyrir frumvarpi til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum. Samkvæmt núgildandi lögum er Reykjavík skylt að fjölga borgarfulltrúum við næstu kosningar úr 15 í að lágmarki 23. Það er yfir helmings fjölgun. Ég tel óeðlilegt að löggjafinn þvingi höfuðborgina til þessa og skipti sér af stjórnskipan borgarinnar með þessum hætti
Borgarfulltrúar í Reykjavík eru nú 15 og hafa aldrei verið fleiri, að einu kjörtímabili undanskildu. Á kjörtímabilinu 1978–1982 var ákveðið að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 21 en strax á næsta kjörtímabili ákvað borgarstjórn að fækka þeim aftur í 15, og hefur síðan ekki séð ástæðu til að fjölga þeim aftur. Engin ástæða er til að löggjafinn þvingi borgaryfirvöld til fjölgunar borgarfulltrúa og er því með þessu frumvarpi lagt til að heimilt verði að borgarfulltrúarnir verði áfram 15.
Bágur fjárhagur borgarinnar gefur heldur ekkert tilefni til að borgarfulltrúum verði fjölgað.
Vert er að vekja sérstaka athygli á því að ekki að með þessu frumvarpi Sigríðar og félaga er ekki verið að þvinga borgarstjórnina til eins eða neins. Þvert á móti er verið að afnema þvinganir til fjölgunar sem vinstri stjórnin leiddi í lög á síðasta kjörtímabili.
Ábyrgðin á fjölgun, ef til hennar kæmi, væri því á herðum borgarstjórnar sjálfrar en ekki ríkisins. Borgarstjórnin fengi aukið sjálfdæmi og þyrfti sjálf að ákveða fjölgun í stað þess að geta skýlt sér á bak við lagaboð.
Vinstri flokkarnir í borgarstjórn hafa í umsögn um frumvarpið frá forsætisnefnd borgarinnar lagst gegn því.