Vefþjóðviljinn 49. tbl. 19. árg.
Enn tala menn um „sátt í sjávarútvegsmálum“. Þeir sem árum saman hafa alið á óánægju með fiskveiðistjórnunarkerfið, krefjast þess að náð verði „sátt“ í málinu. Ef ekki verði farið að vilja þeirra verði áfram „ófriður“. Sjálfir þurfi þeir ekkert að leggja af mörkum til að skapa „sáttina“.
Fyrir nokkrum árum var alvarlega reynt að koma til móts við æsingamennina. Ekki af því að þeir hefðu rétt fyrir sér, heldur til þess að reyna að skapa vinnufrið fyrir mikilvægustu atvinnugrein landsins. Þess vegna var ákveðið að taka upp hófleg veiðigjöld, þótt slík gjaldtaka sé engan veginn skilyrði þess að ákvæði fiskveiðistjórnarlaganna um „sameigin þjóðarinnar“ sé fylgt.
Um leið og æsingamennirnir voru búnir að ná þessari „sátt“, og búið var að ákveða hófleg veiðigjöld, héldu þeir áfram æsingi. Og um leið og róttæk vinstristjórn hafði náð völdum voru veiðigjöldin færð í algert óhóf. Núverandi ríkisstjórn hefur aðeins fært þau hænufet til baka, þrátt fyrir að æsingamenn láti iðulega eins og á þeim hafi verið gerðar miklar breytingar.
Sumir halda að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sé í andstöðu við það að „þjóðin eigi auðlindina“. Það er alger misskilningur. Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er ekki í andstöðu við það. Jafnvel þó engin veiðigjöld yrðu innheimt, þá væri það ekki í andstöðu við það lagaákvæði sem segir að fiskimiðin við Ísland séu sameign þjóðarinnar.
Í hvaða lögum er þetta ákvæði?
Það er í sjálfum fiskveiðistjórnunarlögunum, lögunum um „kvótakerfið“. Af því sést strax að kvótakerfið er ekki í neinni andstöðu við „sameign þjóðarinnar“.
Með „sameign þjóðarinnar“ er ekki átt við að „þjóðin“ sé „eigandi“ fisks sem syndir í sjónum. Þetta þýðir að stjórna skal veiðunum þannig að alltaf verði gjöful fiskimið við Ísland, eftir því sem menn ráða um það, og að veiðarnar verði þjóðhagslega arðbærar.
Eftir að kvótakerfinu var komið á og aflaheimildir urðu framseljanlegar, stórjókst hagkvæmni í sjávarútvegi. Sífelldar gengisfellingar í þágu sjávarútvegsins hurfu. Samfelldir fréttatímar og fréttaskýringar um „erfiða stöðu sjávarútvegsins“ hurfu eins og skiltið „Afsakið hlé“. Hagkvæmnin varð slík að í stað vandamálanna urðu til ofsjónirnar yfir velgengninni.
Öflugur sjávarútvegur er mjög í þjóðarhag. Gríðarleg verðmæti eru dregin á land og flutt út og fyrir þau fæst erlendur gjaldeyrir. Þúsundir manna fá eftirsótt störf og greiða tekjuskatt og útsvar, versla í fyrirtækjum og skapa verðmæti úti um allt. Hundruð fyrirtækja selja sjávarútvegsfyrirtækjum þjónustu. Á verkstæðum eru starfsmenn að setja saman tæki og tól sem notuð eru við veiðar eða vinnslu. Aðrir riða net. Flutningabílstjórar þeytast með afla frá höfn á vinnslustað og svo á flugvöll. Þetta fólk framfleytir sér vegna þess að sjávarútvegurinn er öflugur og getur greitt laun og keypt vörur og þjónustu.
„Þjóðin“ fær ríkulegan arð af „auðlind sinni“. Hún þyrfti engin veiðigjöld til að fá hann.