Föstudagur 5. september 2014

Vefþjóðviljinn 248. tbl. 18. árg.

Eins og allir aðrir þá ákváðu margar af laglegustu leikkonum Hollywood að láta taka af sér nektarmyndir til persónulegra nota. Og að sjálfsögðu geymdu þær myndirnar á öruggasta stað jarðarinnar, „tölvuskýi“ Apple sem hefur þann mikla kost að þar má nálgast innihaldið úr hvaða tölvu sem er.

Eftir að fréttir bárust af því að einhver hefði „brotist inn“ í skýið og náð í myndirnar og dreift þeim til áhugamanna um málefnið, lækkuðu hlutabréf í Apple-fyrirtækinu töluvert. Viðskiptablaðið segir að á þremur dögum hafi verðmæti fyrirtækisins minnkað um hvorki meira né minna en jafnvirði um 3.660 milljarða króna, sem er ótrúleg upphæð þótt hún myndi að vísu ekki nægja nema til að reisa um 100 tónlistarhús við Reykjavíkurhöfn, enda þurfti 36.000 milljónir króna til þess verks en það er auðvitað allt í lagi fyrst sinfónían spilar þar stundum með poppurum.

En 3.660 milljarða verðmætarýrnun Apple þýðir að eignir eigenda fyrirtækisins rýrna um þá upphæð. Auðvitað eru hluthafar Apple fjölbreyttur hópur en líklega má ganga út frá því að þeir stærstu séu í hópi hinna efnamestu í Bandaríkjunum.

Þeir sem mestu hafa tapað á Apple-bréfum síðustu daga eru því líklega einhverjir af hinum efnamestu í landinu.

En ætli hagur hins almenna Bandaríkjamanns hafi batnað sem þessu nam? Hlýtur það ekki að vera? „Misskiptingin“ í landinu minnkaði og „jöfnuðurinn“ jókst. Hvort tveggja eru töfraorð sem geta fyllt hvern sannan vinstrispeking sælu réttlætiskenndarinnar.