Vefþjóðviljinn 42. tbl. 18. árg.
Fréttamaður Ríkissjónvarpsins spurði fjármálaráðherra í alvöru í kvöld hvernig sparifjáreigendur gætu verið öruggir um fé sitt ef Tryggingasjóðs innstæðueigenda nyti ekki við. Tilefnið var að Bretar og Hollendinga hafa stefnt sjóðnum til greiðslu mörg hundruð milljarða króna en í sjóðnum eru 30 milljarðar.
Fréttamaðurinn virðist alveg hafa gleymt því að þessi svonefndi tryggingasjóður er og hefur alltaf verið hrein og klár blekking, falskt öryggi. Tölurnar í stefnu Breta og Hollendinga ættu að vera upprifjun á því.
Fréttamaður: En hvernig á þá að tryggja að fólk og fyrirtæki geti verið örugg um það fé sem það á á bankareikningum?
Fjármálaráðherra: Ég sé ekkert annað í þeirri stöðu, í fljótu bragði, en að stofna nýjan tryggingasjóð, nýjan lögaðila, sem myndi þá safna tryggingum vegna innstæðna.
Væri það rökrétt framhald af greiðsluþroti innstæðutryggingasjóðsins að ríkið beitti sér fyrir stofnun annars af sömu sort?
Eða geta sparifjáreigendur kannski séð um það sjálfir að tryggja innstæður sínar telji þeir ástæðu til? Hvað koma tryggingamál sparifjáreigenda eiginlega ríkinu við? Eigendur nánast allra annarra verðmæta sjá sjálfir um sínar tryggingar. Hví skyldu eigendur reiðufjár ekki gera slíkt hið sama?