Vefþjóðviljinn 27. tbl. 18. árg.
Það er nokkuð hraustlegt af Framsóknarflokknum, skapara verðtryggðu 90% lánanna, að telja sig nú hafa einhvers konar umboð til að banna verðtryggð lán. Og vissulega er það einnig áhugavert að flokkur geti náð góðum kosningaúrslitum fyrir sig með því lofa kjósendum eins miklum verðtryggðum lánum og hver hafi veðrými fyrir og svo nokkrum árum síðar enn betri úrslitum með því að lofa að banna slík lán.
Undanfarin ár hafa bankar boðið bæði verðtryggð og óverðtryggð lán til íbúðarkaupa. Sumum henta löng verðtryggð lán en öðrum stutt óverðtryggð. Það verður ekki séð að aðrir en þeir sem taka lánin geti metið það betur hvaða kostir séu vænlegastir. Ef að einhver lán eru augljóslega hagstæðari að öllu leyti en önnur verða þau væntanlega fyrir valinu hjá flestum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Vilhjálmur Birgisson mega að sjálfsögðu veita landsmönnum ókeypis ráðgjöf um lánamál. En vinsamlegast blandið henni ekki saman við löggjöfina.